Vilja sjónvarpa úr tófugreni

mbl.is/Jónas

Undirbúningur að opnun Melrakkaseturs Íslands sem staðsett verður í Súðavík er nú í fullum gangi.

„Við erum þegar farin að safna sögulegum gögnum,“ segir Ester Rut Unnsteinsdóttir, forstöðumaður safnsins, en nú þegar hefur verið sett af stað verkefnið Gamlir refir sem snýst um að safna bæði sögum, upplýsingum og hlutum frá gömlum refaskyttum. „Við erum að safna tækjum, vopnum og gildrum, fötum og öðru sem sýnir aðbúnað þeirra þegar þeir lágu úti,“ segir hún.

Þá stendur til að opna heimasíðu um refinn nú í vor. „Við erum að velta fyrir okkur leið til að setja upp vefmyndavél í grenjum þannig að fólk geti séð inn í grenin bæði á safninu og líka í tölvunni heima,“ segir Ester.

Hún segir einnig unnið að söfnun upplýsinga um dýrið sjálft, líffræði þess og háttalag. Þá er unnið að viðgerðum á Eyrardalsbænum í Súðavík þar sem safnið kemur til með að hafa aðsetur sitt en húsið er 120 ára gamalt. „Svo vorum við að setja af stað samkeppni um merki safnsins og er öllum frjálst að taka þátt í henni,“ segir hún.

Stefnt er að því að opna safnið árið 2010 en í sumar verður þó boðið upp á leiðsögn fyrir ferðamenn á refaslóðum þar sem fólk getur séð refi í sínu náttúrulega umhverfi. fifa@24stundir.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert