Pólverjar hafa áhyggjur

Ræðismaður Póllands vakti fyrstur, ásamt öðrum Pólverja, athygli lögreglunnar á því að samlandi þeirra, sem eftirlýstur væri af pólskum yfirvöldum vegna gruns um aðild að morði, væri staddur hér á landi.

Michal Sikorski, ræðismaður, sagði í samtali við Morgunblaðið að hinn eftirlýsti hefði ráðist á samlanda sinn, en samkvæmt pólskum fjölmiðlum munu þeir hafa verið saman í fangelsi í Póllandi.

Sagðist Sikorski hafa talað við hinn eftirlýsta í gærkvöldi og hann hygðist gefa sig fram við lögreglu í dag, enda væri honum umhugað um að koma því á hreint að hann væri ekki á flótta.

„Ég hef rætt við fjölda Pólverja hér á landi undanfarið og hafa þeir af því áhyggjur að vafasamir einstaklingar komi hingað til lands frá Póllandi. Þeir vita að slíkir einstaklingar koma illu orði á alla Pólverja auk þess sem þeir leggjast gjarnan á samlanda sína.“

Segir Sikorski að hópur Pólverja hafi hafið söfnun undirskrifta þar sem óskað sé eftir því að íslensk yfirvöld veiti ekki pólskum glæpamönnum dvalar- og atvinnuleyfi.

Hinn eftirlýsti er, samkvæmt fréttum í pólskum fjölmiðlum, í tengslum við hóp sem lögregluyfirvöld þar í landi gruna um að hafa myrt mann úr öðru glæpagengi með sveðjum. Sami hópur er einnig grunaður um eiturlyfjasölu, líkamsárásir og mansal.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert