Ákvörðun um brottvísun úr landi felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fellt úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar frá árinu 2006 um að synja umsókn manns frá Máritaníu um hæli, neita honum um dvalarleyfi og vísa honum úr landi. Dómurinn felldi einnig úr gildi þá ákvörðun dómsmála­ráðuneytisins að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar. 

Maðurinn kom til landsins í október árið 2004 og sagðist hann þá vera ferðamaður en framvísaði fölsuðu vegabréfi frá Belgíu. Í framhaldi af því   óskaði hann eftir hæli á Íslandi. 

Maðurinn sagðist hafa flúið frá heimalandi sínu skömmu áður og farið með skipi til Evrópu. Eftir um það bil viku dvöl þar hafi honum verið ekið á flugvöll en þar hafi hann fengið í hendur vegabréf og farseðil. Hann hafi talið sig vera á leið til Bretlands. Hann hafi slegist í hóp ferðamanna, sem hafi farið í sama flug, en lent hafi verið á Íslandi

Maðurinn sagðist hafa verið hnepptur í ánauð og þrældóm í heimalandi sínu að ástæðulausu og taldi víst að hans bíði sömu örlög verði honum gert að snúa heim aftur. Honum hafi verið haldið í þrældómi í fangelsi í grennd við höfuðborg Máritaníu en  tekist að flýja þaðan í september 2003 á fæðingardegi Múhameðs spámanns þegar hann var við vinnu utan veggja fangelsisins. Fáir fangaverðir hafi verið til staðar þennan dag vegna hátíðahaldanna. Hann hafi hlaupið yfir gróðurlaust land og sanda klukku­stundum saman og komist upp á þjóðveginn en þar hafi hann fengið far með flutninga­bifreið til þorps þar sem hann hitti mann, sem skaut yfir hann skjólshúsi og hjá honum vann hann næstu misserin.

Íslensk stjórnvöld sögðust hafa leitað eftir upplýsingum upp ástand mála í Máritaníu, bæði að því er varðar þrælahald og mismunandi stöðu fólks í samfélaginu eftir kynþætti og menningarhópum. Komið hafi fram að þrælahald sé bannað með lögum í Máritaníu og ný stjórnvöld þar í landi hafi fylgt því eftir af festu.

Þá liggi ekkert fyrir um að maðurinn eigi von á ofsóknum í heimalandi sínu vegna trúarbragða eða þjóðfélagsstöðu. Hann búi því ekki við ástæðuríkan ótta um að verða hnepptur í þrældóm eða ótta um ofsóknir eða að öryggi hans, lífi og frelsi verði ógnað. Einnig var vísað til þess, að hann hefði ekki veitt réttar upplýsingar um sig og ferðir sínar eftir að hann fór frá Máritaníu. 

Dómurinn taldi hins vegar, að niðurstaða íslenskra stjórnvalda væri ekki byggð á fullnægjandi upplýs­ingum um aðstæður mannsins í heimalandinu þannig að unnt hafi verið að meta hvort maðurinn hefði lögmæta ástæðu til að óttast að honum yrði haldið í þrælkun í heima­landinu, fari hann aftur þangað. Bæri þegar af þeirri ástæðu  að taka kröfu hans til greina og fella úrskurðinn úr gildi.    

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert