Aðeins gert ráð fyrir Helguvíkurálveri í þjóðhagsspá

Tölvumynd sem sýnir hvar hugsanlegt álver í Helguvík myndi rísa.
Tölvumynd sem sýnir hvar hugsanlegt álver í Helguvík myndi rísa.

Fjármálaráðuneytið gerir í endurskoðaðri þjóðhagsspá aðeins ráð fyrir nýjum stóriðjuframkvæmdum í Helguvík þar sem Norðurál er að undirbúa að byggja nýtt álver.

Margvíslegar stóriðjuframkvæmdir aðrar eru hins vegar til skoðunar og auk Helguvíkurálversins er fjallað um hugsanlegt álver á Bakka við Húsavík, stækkun álversins í Straumsvik og tvær hreinkísilverksmiðjur í Þorlákshöfn.

Segir í skýrslu fjármálaráðuneytisins, að verði allar þessar framkvæmdir að veruleika myndi það auka umsvif í efnahagslífinu umtalsvert sem gæti reynt á þanþol þess. Hafa beri þó í huga, að um sé ræða langan framkvæmdatíma og að spáð sé frekar litlum hagvexti og auknu atvinnuleysi á komandi árum. Sú staða ætti öðru jöfnu að gera það auðveldara viðfangs að takast á við slík verkefni en ella. 

Gert er ráð fyrir að Seðlabankinn myndi mæta fyrirhuguðum framkvæmdum með hærri stýrivöxtum til þess að draga úr auknum þrýstingi á verðlag og lækkun stýrivaxtarferilsins yrði því ekki eins mikil eins og gert er ráð fyrir í grunnspánni. Einnig er viðbúið að framkvæmdirnar myndu stuðla að styrkingu krónunnar.

Hugsanlega hagkvæmt að kaupa losunarkvóta

Fjármálaráðuneytið segir, að ekki sé á þessu stigi ljóst hvort heimildir Íslands til losunar gróðurhúsalofttegunda muni rúma þau áform um aukna álframleiðslu sem eru á teikniborðinu. Takmarkanir, sem leiða af Kyoto-bókuninni, gildi fyrir tímabilið 2008-2012 að meðaltali og áformin rúmist innan þeirra. Hins vegar sé á þessu stigi ekki ljóst hvað tekur við eftir 2012.

Þó verði að reikna með því að alþjóðasamfélagið komist að niðurstöðu um að draga enn frekar úr losun gróðurhúsalofttegunda en gert var með Kyoto-bókuninni. Segir ráðuneytið, að verði af því að svo kölluð geiranálgun verði að raunveruleika, eins og rætt hafi verið um, gæti það gert íslenskum fyrirtækjum mögulegt að auka framleiðslu, með samvinnuverkefnum við fyrirtæki í sama geira, sem nota framleiðslutækni sem fylgir meiri losun gróðurhúsloftegunda en hér yrði notuð. Þá sé ekki útilokað að hagkvæmt gæti reynst að reka álver á Íslandi, þótt kaupa þyrfti til þess losunarheimildir á markaði.

Endurskoðuð þjóðhagsspá

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert