„Róðurinn að þyngjast"

Skuldir fólks sem leitaði í fyrra til Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna  hækkuðu að meðatali um 15% milli ára. Þetta kom fram á fundi í  morgun þar sem ársskýrsla Ráðgjafarstofu var kynnt. „Þetta eru vísbendingar um að róðurinn sé að þyngjast,“ sagði Ásta S. Helgadóttir, forstöðumaður Ráðgjafarstofu um þessar tölur.

Alls  voru afgreiddar 612 umsóknir hjá Ráðgjafarstofu í fyrra. Símaráðgjöf var einnig veitt alla virka daga og voru að meðaltali afgreidd um 40 símtöl á mánuði. Ásta benti á að þau vanskil sem mest hefðu aukist milli ára væru raðgreiðslusamningar og bílalán.

Fram kom hjá Ástu að þeir sem helst leita til Ráðgjafarstofu vegna fjárhagsvandræða eru einstæðar mæður, sem voru 34% viðskiptavina ráðgjafarstofunnar í fyrra. Nærst stærsti hópurinn sem leitaði eftir aðstoð eru einhleypir karlar. Sagði Ásta það ánægjulegt að svo virtist sem þessi hópur sæktist í auknum mæli eftir aðstoð.

Aldurshóparnir 21-30 ára og 31-40 ára voru næstum jafn fjölmennir meðal viðskiptavina Ráðgjafarstofu í fyrra. Ásta sagði það áhyggjuefni hversu margir á þrítugsaldri væru mjög skuldsettir. Fyrirfram hefði mátt ætla að fólk sem búið væri að ljúka námi og koma sér fyrir væri skuldsettast.

Meirihluti þeirra sem óskaði aðstoðar stundaði atvinnu, eða 57%. Algengt var að fólk nefndi fleiri en eina ástæðu fyrir greiðsluerfiðleikum, svo sem veikindi eða tekjuminnkun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert