Vorrall færir vonarneista en engin stórtíðindi

Vorrall Hafrannsóknastofnunar færir ekki mikil tíðindi en vekur þó vonarneista um að hlutir þokist í rétta átt. Þetta kom fram í máli Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra í utandagskrárumræðum á Alþingi í gær.

Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, var málshefjandi en hann sagði ljóst af gögnum úr togararallinu að þorskurinn væri vel á sig kominn og að stærri fiskur væri kominn inn á miðin. Aflabrögð væru því mikil. „Þetta vita fiskimenn og þetta þykja góðar vísbendingar,“ sagði Guðjón og botnaði því lítið í niðurstöðum fiskifræðinga Hafrannsóknastofnunar (Hafró) sem haldi því fram að þorskaflinn þurfi að vera óbreyttur a.m.k. næstu fimm árin.

„Ég er ekki viss um að nokkur fiskimaður á vertíðarsvæðunum sé sammála þessu mati.“

Guðjón kallaði eftir endurmati á stærð þorskstofnsins til að koma í veg fyrir sóun verðmæta og sagðist jafnframt óttast það mjög að á komandi vikum og mánuðum muni brottkast aukast gífurlega. „Ég dreg þá ályktun af því að aflinn er góður og veiðiheimildir eru að snarminnka,“ sagði Guðjón.

Einar K. Guðfinnsson sagði hins vegar togararallið ekki færa mikil tíðindi en að í því væru þó vísbendingar í rétta átt. M.a. virtist þyngdaraukning hafa átt sér stað í þorskstofninum en undanfarin ár hefur hann lést. Þá væru vísbendingar um að hrygningarstofninn sé að stækka.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert