4,6 bækur á hverja þúsund íbúa

mbl.is/G. Rúnar

Árið 2006 komu út 1419 bókatitlar hér á landi en það jafngildir 4,6 bókum á hverja 1000 íbúa. Útgefnum bókum hefur fækkað nokkuð á undanförnum árum eða um 275 frá því að flestar bækur komu út árið 2000. Það ár voru sex bækur gefnar út á hverja 1000 íbúa.

Þetta kemur fram í tölum, sem Hagstofan hefur tekið saman. Langflestar þeirra bóka sem gefnar eru út ár hvert eru íslensk höfundarverk, rituð á íslensku, eða nærri þrjár af hverjum fjórum útgáfum. Hlutur þýðinga hefur þó aukist jafnt og þétt á árabilinu. Hlutur þýðinga nam 22 af hundraði árið 1999 samanborið við 27 af hundraði árið 2006.

Þýðingar úr ensku eru langsamlega flestar. Sjö af hverjum tíu þýddum bókum sem út voru gefnar árið 2006 voru þýðingar á bókum úr ensku. Af öllum þýðingum árið 1999 voru útgáfur bóka þýddra úr ensku um 62 prósent á móti tæpum 69 prósentum árið 2006. Sömu tilhneigingar gætir varðandi uppruna bókmenntaþýðinga að sögn Hagstofunnar. Hlutfall þýðinga úr ensku jókst úr 68 prósentum upp í 74 prósent á árabilinu 1999–2006.

Árið 2006 skiptist bókaútgáfan þannig að af hverjum 100 útgefnum titlum voru um 15 þeirra fyrir börn og unglinga, fimm kennslu- og námsbækur og 80 um annað efni. Hlutur bóka fyrir börn og ungmenni hefur aukist nær samfellt frá 1999, eða úr tæpum tíu af hundraði upp í tæp 15 af hundraði árið 2006.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert