Meirihluti ber lítið traust til Seðlabankans

Í nýrri könnun Fréttablaðsins sögðut 51,8% þeirra sem tóku afstöðu  bera lítið eða mjög lítið traust til Seðlabankans. 31,9% sögðust bera nokkurt traust til bankans en 16,3 prósent bera mikið eða mjög mikið traust til hans.

Blaðið segir að í könnuninni hafi kjósendur Sjálfstæðisflokksins sagst bera mest traust til Seðlabankans, en 36,8% þeirra bera mikið eða mjög mikið traust til hans.  Minnst traust á Seðlabankanum er meðal kjósenda Frjálslynda flokksins, en tveir þriðju þeirra segjast bera lítið eða mjög lítið traust til bankans. Um sextíu prósent kjósenda Samfylkingar, Vinstri grænna og þeirra sem ekki gefa upp stuðning við flokk sögðust vera sama sinnis. Þá segist þriðjungur framsóknarfólks bera lítið eða mjög lítið traust til bankans og fjórðungur kjósenda Sjálfstæðisflokksins.

Hringt var í 800 manns á kosningaaldri laugardaginn 19. apríl. Spurt var: Hversu mikið traust berð þú til Seðlabanka Íslands? 91% tók afstöðu til spurningarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert