Dómarar fá ekki að víkja

Dómhús Hæstaréttar.
Dómhús Hæstaréttar.

Hæstiréttur hefur fellt úr gildi úrskurð Péturs Guðgeirssonar, dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur um að hann og tveir meðdómendur eigi að víkja sæti í nauðgunarmáli, en Hæstiréttur ómerkti dóm héraðsdóms í málinu og vísaði því aftur heim í hérað. Átelur Hæstiréttur dómarann fyrir ummæli í úrskurði sínum.

Um er að ræða dóm í máli ungs erlends manns, sem ákærður var fyrir að nauðga ungri konu á salerni á Hótel Sögu. Fjölskipaður héraðsdómur sýknaði manninn og sagði að væri byggt á frásögn stúlkunnar yrði að líta svo á, að það að maðurinn ýtti konunni inn í klefann, læsti klefanum innan frá, dró niður um hana, ýtti henni niður á salernið og síðan niður á gólf geti, hlutrænt séð, ekki talist ofbeldi í skilningi almennra hegningarlaga, eins og það hugtak hafi verið skýrt í refsirétti og í langri dómaframkvæmd. Nægði það eitt til að sýkna manninn.

Hæstiréttur ómerkti þennan dóm og sagði ályktun héraðsdóms um lögskýringu fengi ekki staðist í ljósi dómaframkvæmdar. Í kjölfarið úrskurðaði Pétur Guðgeirsson, að dómendur málsins gætu ekki fjallað frekar um það undir þeim skilmálum, sem þeim hefðu verið settir þar sem að í dómi Hæstaréttar hefði falist fyrirmæli til dómaranna um að álykta beri á tiltekinn veg af atvikum málsins. Hljóti slík íhlutun að vera í andstöðu við ákvæði stjórnarskrárinnar þar sem tryggður er réttur manns til þess að fá fjallað um ákæru á hendur honum fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli.

Hæstiréttur segir í dómnum í dag, að þær ástæður, sem færðar séu í úrskurðinum fyrir því að dómararnir skuli víkja sæti, varði í engu hæfi dómendanna til að fara með málið. Því sé úrskurðurinn felldur úr gildi en Hæstiréttur segir jafnframt, að það sé ekki á hans færi, að leggja fyrir tiltekna héraðsdómara að fara með málið að efni til.

Hæstiréttur segir einnig að í úrskurði héraðsdóms séu ummæli, sem varði ómerkingardóm Hæstaréttar. Slík ummæli eigi ekkert erindi í dómsúrlausn og beri að átelja héraðsdómarann fyrir þau.

Ekki er tekið fram við hvaða ummæli sé átt en í úrskurði héraðsdóms er m.a. talað um vangaveltur Hæstaréttar yfir kvennasalerninu.

Dómur Hæstaréttar og úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert