Geir: Góður og árangursríkur fundur

Geir H. Haarde, Inga Jóna Þórðardóttir, Sarah og Gordon Brown …
Geir H. Haarde, Inga Jóna Þórðardóttir, Sarah og Gordon Brown í morgun Reuters

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að fundur hans og Gordons Brown, forsætisráðherra Bretlands, í Downing stræti 10 í Lundúnum í morgun hafi verið góður og árangursríkur en ráðherrarnir þekkjast ágætlega frá þeim tíma er þeir gegndu starfi fjármálaráherra. Meðal þess sem ráðherrarnir ræddu voru alþjóðleg efnahagsmál, öryggismál og orkumál en Brown hefur mikinn áhuga á jarðhita og grænni orku.

Að sögn Geirs ræddu þeir fjölmörg málefni, meðal annars ástandið á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og áhrif þess á íslenskan og breskan fjármálamarkað. Geir segir að Brown sé góður viðmælandi um þessi mál enda þekki hann þau vel sem fyrrum fjármálaráðherra. Brown sé jafnframt vel að sér um íslenskan fjármálamarkað. 

Geir segir að hann hafi bent Brown á tengslin milli Íslands og Bretlands en um 120 þúsund manns starfi fyrir íslensk fyrirtæki í Bretlandi.

Vilja gera samkomulag um samstarf á sviði öryggismála

Gordon Brown og Geir H. Haarde ræddu einnig samstarf á sviði öryggismála á friðartímum á fundinum í morgun. Að sögn Geirs vilja Bretar undirrita viljayfirlýsingu um samstarf um öryggismál líkt og Danir og Norðmenn hafa þegar gert við Íslendinga. Eru viðræður langt komnar við Breta um þessi mál og gerir Geir ráð fyrir því að hægt verði að undirrita viljayfirlýsingu þar að lútandi þegar utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, kemur til Bretlands á næstunni. 

Bretar hafa að sögn Geirs áhuga á því að taka þátt í loftrýmiseftirliti hér á landi á vegum Atlantshafsbandalagsins sem hefst í næsta mánuði er Frakkar senda hingað flugsveit.

Forsætisráðherrarnir ræddu einnig málefni Afganistan á fundinum í morgun í kjölfar viðræðna á síðasta leiðtogafundi NATO sem fram fór í Búkarest. Geir segir Brown leggi áherslu á að öll aðildarríki NATO leggi sitt af mörkum hvað varðar Afganistan. Segir Geir að hann hafi sagt Brown að Ísland myndi gera sitt þó það yrði alltaf takmarkað hvað við gætum gert. 

Málefni Hatton Rockall voru einnig til umræðu á fundinum en nýverið var haldinn árangurslaus fundur um svæðið í Bretlandi. Ísland, Írland, Bretland og Danmörk gera öll tilkall til landgrunns á Hatton Rockall-svæðinu, en það er suður af Íslandi og vestan Bretlandseyja. Yfirráðum yfir landgrunni fylgir m.a. réttur til að nýta auðlindir á eða undir hafsbotninum, t.d. olíu. Geir segist hafa lýst yfir vonbrigðum með það við Brown að fundur viðræðunefnda ríkjanna fjögurra hafi ekki skilað neinu en breski forsætisráðherrann hafi lýst því yfir að málið yrði klárað það tæki hins vegar tíma. 

Sammála um að vera ósammála

Brown og Geir ræddu hvalveiðar á fundinum og fóru þær viðræður fram í mestu vinsemd að sögn Geirs enda ráherrarnir sammála um að vera ósammála í því máli þar sem bresk stjórnvöld hafa lýst yfir andstöðu við hvalveiðar. Geir sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að hann hafi bent Brown á það að hvalveiðar væru ekki stundaðar hér í atvinnuskyni  nú og einungis væri um takmarkaðar vísindaveiðar að ræða. 

Fundi þeirra lauk með því að Geir færði Brown bókina Grafarþögn eftir Arnald Indriðason að gjöf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert