Ætlar að kæra Árna Johnsen

Árni Johnsen
Árni Johnsen

Gunnar Gunnarsson, aðstoðarvegamálastjóri, ætlar að kæra Árna Johnsen alþingismann  til lögreglu fyrir ummæli sem hann lét falla í grein í Morgunblaðinu í dag. Grein Árna fylgir hér að neðan.

„Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri, Sturla Böðvarsson, fyrrverandi samgönguráðherra, og Páll Sigurjónsson verkfræðingur reyna að hvítþvo ummæli sem ég viðhafði í Morgunblaðinu um miðjan apríl í sambandi við fyrirhugaða Landeyjahöfn, á þá leið að bæði samgönguráðherra fyrrverandi og aðstoðarvegamálastjóri, Gunnar Gunnarsson, hefðu unnið mjög slælega að úttekt á eðlilegum valkostum við næsta skref í samgöngum milli lands og Eyja, það er jarðgöngum, nýjum Herjólfi til Þorlákshafnar og ferjuhöfn á Bakkafjöru.

Það er bláköld staðreynd að fyrrverandi samgönguráðherra lá ekkert á því í upphafi úttektar á þessum möguleikum að hann vildi höfn á Bakkafjöru og nákvæmlega út frá því sjónarmiði var unnið.

Aðaltengiliður fyrrverandi samgönguráðherra af hálfu Vegagerðarinnar var Gunnar Gunnarsson, lögfræðingur og aðstoðarvegamálstjóri, sem Sturla hafði skipað í embætti svo furðu sætti, enda stílbrot. Hann reyndist þægur. Úttektarnefndin kom ekki með eina einustu tillögu um úttekt vegna verkefnisins en studdist við það sem Vegagerðin rétti henni og upplýsingar um rannsóknir sem Ægisdyr í Vestmannaeyjum, bæjarstjórn Vestmannaeyja, þingmenn og fleiri lömdu í gegn að unnið yrði að. Þar á ég við rannsóknir ISOR á jarðgangaleiðinni frá Klifi á Heimaey í Kross á fastalandinu, en þeim var aldrei lokið og ekki var snert við þeim kafla sem mestu skipti máli, fyrstu km frá Heimaey. Þessu stjórnaði Vegagerðin og vann beinlínis skemmdarverk með verklagi sínu.

Spár og skýrslur sem Vegagerðin safnaði saman voru út og suður og eina skýrslan sem var marktæk var skýrsla Mott Mc Donald í Bretlandi þótt hún hefði allt annan útgangspunkt en íslenskar og norrænar reglur ganga út frá. Kostnaðarfylliríið var áætlað allt frá 30 milljörðum upp í 90 milljarða, en úttektarnefndin gat ekki einu sinni kostnaðaráætlana frá NCC-verktakafyrirtækinu og Multiconsult í Noregi upp á 16 milljarða króna á verðlagi þess tíma fyrir tveimur árum.

Ef nefndarmenn í úttektarnefndinni komu með tillögur um að skoða ýmsa þætti betur, þá var það slegið út að borðinu með orðum aðstoðarvegamálastjóra, lögfræðingnum í nefndinni. Hann stjórnaði sem sagt gangi mála og þess vegna varð vinna nefndarinnar varðandi jarðgangamöguleika eða nýs Herjólfs til Þorlákshafnar fúsk eitt. Það má vel vera að samgönguráðherra fyrrverandi hafi verið hafður að fífli af tengilið sínum í Vegagerðinni, þeim hlýðna, en lygilegt er að lögfræðingur skyldi sitja í þessari nefnd af hálfu Vegagerðarinnar en ekki Hreinn Haraldsson, forstöðumaður þeirrar deildar sem sér um jarðgangamál, sérfræðingur í jarðfræði. Það verður þó að virða snilld aðstoðarvegamálastjóra, til að mynda í ferli Grímseyjarferjunnar sem hann hafði allan veg og vanda af, en dýr var virðingin.

Það spruttu ótrúlegar setningar á fundi fyrir liðlega einu ári í Vegagerðinni þegar einn af sérfræðingum landsins spurði Hrein hvort Vegagerðin stæði að 70-90 milljarða kostnaðaráætluninni sem kom fram í einni „pöntuðu skýrslunni“. „Nei“, svaraði Hreinn, „það er tóm vitleysa.“ „Hvað teljið þið þá að það kosti að gera Eyjagöng?“ spurði háskólasérfræðingurinn. „Það gæti kostað 30 milljarða, ja, 30-40 milljarða,“ svaraði Hreinn. Þá kallaði vegamálastjóri þá fram í, „það kostar ábyggilega 50 milljarða eða meira.“ „Ja, það gæti verið nær 40 milljörðunum,“ sagði Hreinn þá. Þessir ágætu menn voru að prútta um kostnað við gerð Eyjaganga upp í opið geðið á okkur. Ótrúlegt. Og á fundi í Vegagerðinni skömmu síðar, þegar Björn Harðarson, jarðvegsverkfræðingur og sérlegur verktaki Vegagerðarinnar í eftirliti við gerð jarðganga, var búinn að mála marga skratta á vegginn varðandi jarðgöng til Eyja án raka spurði ég hann hvort hann hefði ekki gengið fulllangt.“ Ég var eins svartsýnn og hugsast gat,“ svarði hann. Verkefni vinnast ekki á geðhvörfum spákerlinga, heldur rannsóknum og rökum.

Á lokakafla úttektarnefndarinnar voru Ingi Sigurðsson og Páll Zóphaníasson með ýmsar ábendingar og fyrirvara, sérstaklega um væntanlegar og nauðsynlegar upplýsingar varðandi jarðgöng. Þeir komust ekki fetið og skrifuðu undir nefndarálitið í þeirri trú að fyrirvarar þeirra yrðu virtir. Það var blásið út af borðinu eins og biðukollufjaðrir.

Siglingastofnun vann mjög faglega og markvisst að sínu verkefni á Bakkafjöru, en það var ekki vegna beiðni úttektarnefndarinnar. Allt er þetta hið sorglegasta mál og sérstaklega að snillingur og afburða drengur eins og Páll Sigurjónsson, Ofanbyggjari í Vestmannaeyjum, skyldi leiðast inn í þessa rúllettu.

Ummæli mín um þátt fyrrverandi samgönguráðherra í þessu máli og núverandi aðstoðarvegamálastjóra voru hvorki tilefnislaus né ómakleg. Þau voru mjög varlega orðuð miðað við staðreyndir sem má tína til hverja af annarri."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert