Björgunarviðbrögð æfð í Eyjum

Landhelgisgæslan kom til aðstoðar við björgunaræfinguna.
Landhelgisgæslan kom til aðstoðar við björgunaræfinguna. mbl.is/Guðmundur Freyr Jónsson

Flugslys var sviðssett á flugvellinum í Vestmannaeyjum skömmu eftir hádegi í dag. Markmið æfingarinnar er að æfa samhæfingu björgunaraðila við björgun í kjölfar umfangsmikils hópslyss. Að sögn Hrafnhildar Brynju Stefánsdóttur hefur æfingin sem enn stendur yfir tekist með ágætum.

Kveiktir voru eldar í bílflökum og léku sjálfboðaliðar látna og slasaða sem sátu fastir í bílum sem komu í stað flugvélaflaks. Beita þurfti klippum á til að ná sumum af hinum „slösuðu" út.

Átti að láta líta svo út að 40 sæta flugvél hefði brotlent við flugbrautarendann og eldur komið upp í henni. Að sögn Hrafnhildar Brynju er eitt af markmiðum æfingarinnar fyrir utan að bjarga og greina þá sem slösuðust er að finna flugritann í flakinu.

Alls taka á þriðja hundrað manna þátt í æfingunni og koma þeir alls staðar að af landinu. Slökkviliðin frá höfuðborgarsvæðinu og Akureyri taka bæði þátt, Landhelgisgæslan, Landsspítalinn, Landlæknir, Flugstoðir, Biskupsstofa og Ríkislögreglustjóri ásamt Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Rauða krossi Íslands, Rannsóknarnefnd flugslysa, Flugmálastjórn, Neyðarlínunni og Flugfélagi Íslands sem einnig taka þátt í þessari viðamiklu æfingu.

„Þessi æfing nýtist við gerð flugslysaáætlunar sem er gerð í samvinnu við almannavarnir en þessi vinnubrögð sem verið er að æfa hér þau nýtast í hvaða hópslysi sem er," sagði Hrafnhildur að lokum.

Viðamiklar björgunaræfingar standa nú yfir í Vestmannaeyjum.
Viðamiklar björgunaræfingar standa nú yfir í Vestmannaeyjum. Ljósmynd Flugstoðir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert