Sóley: Borgarstjóri afhjúpar skilningsleysi sitt

Sóley Tómasdóttir
Sóley Tómasdóttir

Sóley Tómasdóttir hefur svarað yfirlýsingu borgarstjóra frá því í morgun og segir hann halda áfram að afhjúpa skilningsleysi sitt gagnvart málaflokki mannréttinda. Hún segir yfirlýsingu hans einkennast af rangfærslum og ofmati á eigin verkum . 

Orðrétt segir Sóley: „Um yfirlýsingu borgarstjóra frá því í morgun hef ég eftirfarandi að segja:

Borgarstjóri heldur áfram að afhjúpa skilningsleysi sitt gagnvart málaflokki mannréttinda. Yfirlýsing hans, sem einkennist af rangfærslum og ofmati á eigin verkum er til marks um fullkomið sambandsleysi borgarstjóra við umbjóðendur sína. Hann getur vísað öllu því sem hann vill á bug, en eftir standa fyrirætlanir hans um að koma í veg fyrir öflugt manréttindastarf hjá borginni.

Að hreykja sér af jafn sjálfsögðum verkefnum og þýðingu stefnu sem varðar innflytjendur er ekki til marks um metnað, né heldur yfirlit yfir starfshópa og aðgerðaráætlanir sem ekki mun komast til framkvæmda vegna skorts á starfsfólki. Auk þess er það beinlínis rangt sem kemur fram í yfirlýsingu borgarstjóra að hjá borginni starfi níu mannréttindafulltrúar. Af þeim níu sem bera titilinn mannréttindafulltrúi er aðeins einn sem þiggur fyrir það laun. Aðrir fengu titilinn til viðbótar við önnur störf sem þeir réðu sig til í upphafi.

Tilraunir borgarstjórans til að gera lítið úr afrekum hundrað daga meirihlutans eru vesældarlegar, því eins og hann veit best sjálfur voru umfangsmiklar breytingar gerðar á því stutta tímabili. Breytingar sem borgarstjóri vinnur nú hörðum höndum við að þvinga til baka og koma í veg fyrir að skili árangri fyrir borgarbúa.

Ekki verður séð að þessi atlaga borgarstjóra að mannréttindaskrifstofunni geti orðið til eflingar á málaflokknum. Það er viðvarandi verkefni að tryggja mannréttindi, vinna sem ekki kemur af sjálfu sér. Ekki frekar en annað starf sem borgin þarf að inna af hendi. "


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert