Landspítalinn vinnur að neyðaráætlun með öðrum spítölum

 Kappkostað verður að halda úti eins góðri þjónustu á Landsspítalanum og mögulegt er miðað við aðstæður.

Þetta sagði Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra við Morgunblaðið eftir fund sem boðað var til seint í gærkvöldi með stjórnendum spítalanna á Akranesi, Selfossi, í Reykjanesbæ og Hafnarfirði. Á fundinum var rædd aðkoma spítalanna og samvinna við lausn á þeim mikla vanda sem fyrirsjáanlegur er á Landspítalanum þegar uppsagnir skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðinga taka gildi 1. maí. Á fundinum voru einnig rædd viðbrögð við boðuðum aðgerðum geislafræðinga, að sögn ráðherra.

Gripið verður til viðbragðsáætlunar sem verður nánar skipulögð í dag og á morgun. „Lýstu forsvarsmenn spítalanna allir vilja sínum til að koma að áætluninni í góðu samstarfi við sitt starfsfólk. Einnig verður haft samstarf við sjúkrahúsið á Akureyri,“ sagði Guðlaugur Þór.

Áætlunin felur í sér að hægt verður að viðhalda lágmarksbráðaþjónustu á Landspítala, þ. á m. gera keisaraskurði og skurðaðgerðir vegna krabbameins, en öðrum aðgerðum verður vísað til samstarfsspítalanna eins og unnt er.

Þeim breytingum sem boðaðar hafa verið á störfum skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðinga segir heilbrigðisráðherra að sé einkum ætlað að uppfylla ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins um lágmarkshvíldartíma og að óverulegur sparnaður hljótist fyrir spítalann af hinu nýja fyrirkomulagi. Vel hafi gengið að innleiða sams konar breytingar við aðrar deildir á spítalanum.

Guðlaugur Þór vonast til að deilan muni leysast og að þeir hjúkrunarfræðingar sem sagt hafa upp komi aftur til starfa. „Ég held að allir hlutaðeigandi séu reiðubúnir til þess að finna leið til að leysa málið,“ segir hann.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert