Gengið gegn slysum á fimmtudag

Hópur hjúkrunarfræðinga á Landspítala efnir á ný til fjöldagöngu gegn umferðarslysum á fimmtudaginn kemur, 8. maí,  í því skyni að votta fórnarlömbum slysa og aðstandendum þeirra samúð og stuðning og vekja almenning til umhugsunar hve slys geta haft alvarlegar og víðtækar afleiðingar.

Síðast en ekki síst vilja aðstandendur göngunnar minna á að alvarleg slys koma líka illa við alla þá sem starfs síns vegna koma þar við sögu, til dæmis heilbrigðisstarfsfólk, lögreglu, slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn, starfsmenn Landhelgisgæslunnar, presta og starfsmenn í útfararþjónustu, samkvæmt tilkynningu.

Þúsundir manna tóku þátt í göngu gegn slysum 26. júní 2007, fleiri en flesta óraði fyrir. Á fimmtudaginn verður safnast saman á lóð  Landspítalans við Hringbraut, Eiríksgötumegin, og lagt af stað kl. 16:30. Gengið verður fram hjá slökkvistöðinni við Skógahlíð og áfram sem leið liggur að þyrlupallinum við LSH í Fossvogi.

Sjúkraflutningamenn ætla sem fyrr að halda á lofti svörtum blöðrum í göngunni í minningu þeirra 15 sem fórust í umferðinni á Íslandi á árinu 2007. Hjúkrunarfræðingar halda á lofti rauðum blöðrum sem tákni fyrir þau 166 alvarlegu umferðarslys sem áttu sér stað á sama tíma.  

Mikill mannfjöldi tók þátt í göngunni í fyrra.
Mikill mannfjöldi tók þátt í göngunni í fyrra. mbl.is/Sverrir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert