Sjónarspil í háloftunum

Það var talsvert sjónarspil þegar fjórar franskar Mirage 2000 orrustuflugvélar á vegum Atlantshafsbandalagsins lentu á Keflavíkurflugvelli í morgun. Vélarnar munu sinna eftirlitsflugi við Ísland næstu vikur, en í frönsku flugsveitinni eru 110 manns, þar af 50 orrustuflugmenn.

Óhætt er að segja að koma herþotnanna marki tímamót þar sem þetta er í fyrsta sinn sem annað aðildarríki bandalagsins en Bandaríkin sendir herþotur til landsins til að vakta íslenska lofthelgi. Vélarnar munu sinna loftrýmisgæslu við Íslandsstrendur og hafa meðal annars eftirlit með flugi langdrægra rússneskra herflugvéla í grennd við íslenska lofthelgi.

Fram kom á blaðamannafundi í utanríkisráðuneytinu í morgun að koma herþotnanna væri í samræmi við áherslur íslenskra stjórnvalda um að Ísland axli meiri ábyrgð í eigin vörnum - sem og vörnum Atlantshafsbandalagsins.

Þá kom fram að tvær orrustuþotur muni verða til taks allan sólarhringinn og eiga þær að geta tekið á loft á innan við 15 mínútum ef þess gerist þörf. Franska flugsveitin verður hér á landi í um sex vikur eða til 20. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert