Ætla að vinna á verðbólgunni

Frá fundinum í Ráðherrabústaðnum nú síðdegis.
Frá fundinum í Ráðherrabústaðnum nú síðdegis. mbl.is/Kristinn

Á samráðsfundi fulltrúa ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins nú síðdegis var mikil eindrægni og einhugur um að vinna saman að því að kveða verðbólguna niður. 

Fundurinn hafði verið boðaður með talsverðum fyrirvara og hefur annar fundur verið ákveðinn í sumar. Fyrir þann fund munu sérfræðingar fara yfir mál og greina vandann og koma með tillögur um til hvaða aðgerða megi grípa.

Fundinn í Ráðherrabústaðnum sátu, auk ráðherra og embættismanna fulltrúar Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands, BSRB, BHM og Samtaka íslenskra sveitarfélaga.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði að á fundinum hefði verið farið yfir þróun mála frá því kjarasamningar voru gerðir í febrúar. Því miður hefði ekki allt farið til betri vegar varðandi ástandið í þjóðarbúskapnum og lánamálum þjóðarinnar.

„Það er óhætt að segja að að það var mjög góður samhljómur á fundinum og það hefur enginn áhuga á því að verðbólga festist hér í sessi," sagði Geir. „Það var einhugur meðal manna að ná þeim stöðugleika á ný sem er nauðsynlegur."

Undir þetta tóku aðrir sem tjáðu sig eftir fundinn. Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, sagðist m.a. telja að fundurinn hefði verið mikilvægur og sagðist hann binda miklar vonir við framhaldið. Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, sagðist telja þörf á sameiginlegu átaki þjóðarinnar allrar til að kveða verðbólguna niður.

Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins, sagði að þegar umsátrinu um Ísland lyki yrði örugglega sagt að ástæðan fyrir því að það fór farsællega hafi verið samtakamáttur, m.a. í þeim hópi sem sat fundinn í dag. Hann sagðist einnig vonast til að fljótlega liggi fyrir ákvörðun um að taka lán til að auka gjaldeyrisforðann og auka traust og koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert