Fangar snúa við blaðinu

Síbrotamaður segist sjá fram á að geta snúið lífi sínu til betri vegar eftir að hann fékk vistun á meðferðargangi á Litla-Hrauni. Afbrotaferillinn er langur og fangavistin var jafnan deyfð með fíkniefnum. Mbl sjónvarp heimsótti fangelsið og fann að vonarneisti hefur kviknað innan veggja þess.

Fangarnir á Litla-Hrauni hafa ýmsa aðra hæfileika en að brjóta af sér. 22 ára síbrotamaður er til að mynda býsna sleipur lagahöfundur og eyðir talsverðum tíma í tónlistina. Hann er einn ellefu fanga sem afplána nú skemmri eða lengri dóma á sérstökum meðferðargangi á Litla-Hrauni.

Mennirnir þar eiga það sammerkt að vilja vinna sig út úr vítahring andfélagslegs hugarfars, afbrotahegðunar og vímuefnamisnotkunar. Á meðferðarganginum njóta þeir aðstoðar við að koma undir sig fótunum.

Bjössi er einn þeirra. Hann hóf að nota fíkniefni á unglingsaldri og var aðeins 17 ára þegar hann var fyrst fangelsaður á Hrauninu. Síðan þá hefur hann verið þar tíður gestur. Nú er hann 35 ára og hefur fengið nóg.

Meðferðargangurinn á Litla-Hrauni var tilraunaverkefni til hálfs árs og hefði verið lokað um næstu mánaðamót ef fjárveiting hefði ekki fengist til að halda starfinu þar áfram. Nú er ljóst að dóms- og heilbrigðisráðuneytin ætla að verja 15 milljónum króna í verkefnið, en það tryggir starfsemina til ársloka. Bjössi segir mjög uppbyggilegt að vera loksins kominn á þennan stað.

Bjössi var duglegur sölumaður vímuefna og segist til þessa hafa lifað í nokkurs konar hringekju þar sem fíkniefnaneysla og afbrot tóku jafnan við af fangavistinni. Nú er hann edrú og dreymir um að vakna á morgnana eins og venjulegur maður, sinna fastri vinnu og stofna fjölskyldu. Hann er búinn að taka fyrsta skrefið og vonar að honum mæti umburðarlyndi þegar hann fetar sig á ný út í samfélagið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert