Mótmælunum hvergi nærri lokið

Mótmæli atvinnubílstjóra eru aftur komin á fullt skrið að sögn Sturlu Jónssonar, talsmanns bílstjóranna, en þeir mótmæltu fyrir framan Alþingishúsið í dag. Aðspurður segist Sturla vilja fá fund með Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. „Menn vilja það,“ sagði hann í samtali við mbl.is.

Um 15 flutninga- og fólksbílar söfnuðust saman fyrir framan Alþingishúsið um kl. 12 og þeyttu bílstjórarnir flauturnar af krafti. Lögreglan kom fljótlega á staðinn og bað bílstjórana um að færa bílana sem tepptu umferðina.

Mótmælin fóru friðsamlega fram og yfirgáfu bílstjórarnir svæðið um hálf eitt líkt og þeir höfðu lofað lögreglunni.   

Sturla segir að mótmælin muni halda áfram. Aðspurður segist hann vona að ekki komi aftur til átaka líkt og gerðist við Rauðavatn í síðasta mánuði.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert