Ögrandi og spennandi verkefni

Ráðning Jakobs Frímanns Magnússonar í stöðu framkvæmdastjóra miðborgar hefur vakið mikla athygli og umræðu. Starfið var ekki auglýst en Ólafur F. Magnússon borgarstjóri segir ráðninguna innan marka reglna borgarinnar og mikið hafi legið á að hefja þau verkefni sem falla undir framkvæmdastjóra.  

Þegar er byrjað að hreinsa götur Laugavegs og Hverfisgötunnar. Þessa helgina er í gangi hvítur stormsveipur um hvítasunnuhelgina. Þar er verið að taka til og ná öllu rusli úr görðum, lóðum og portum. 

Jakob segir að leitað hafi verið til nokkurra einstaklinga varðandi starf framkvæmdastjóra Miðborgar og meðal annars talað við fyrrverandi miðborgarstjóra. Hann lítur á þetta sem ögrandi verkefni og á vissan hátt spennandi.  

Það kom Jakob á óvart hve kröftug og vel undirbúin atlagan að borgarstjóranum var í kjölfar ráðningar sinnar. Að mati Jakobs er  Ólafur F. Magnússon einhver heiðarlegasti og ærlegasti maður sem hann hefur kynnst.  „Hann mun líklega sem borgarstjóri sanna það með verkum sínum að þrátt fyrir mikið andstreymi í upphafi þá mun hann sennilega skilja eftir sig á einu ári fleiri bautasteina og minnisvarða um góð verk heldur en margir forverar hans hafa gert á 4, 8 og jafnvel 12 árum,“ sagði hann. 

Jakob segist ekkert viss um að hann muni áfram gegn formennsku í hverfisráði miðborgar og varaformennsku í ferða- og menningarmálaráði sé það talið heppilegra að hann aðskilji á milli þessara starfa. Þá mun hann líklega vera áheyrnarfulltrúi eða fylgjast með störfum þeirra nefnda sem hann hefur setið í til þessa. 

Hvað varðar þá neikvæðu umræðu sem upp hefur sprottið varðandi ráðningu hans telur Jakob að öll umræða eigi rétt á sér. Segir hann að hægt sé að taka til skrif gegn hverju og hverjum sem er. „Það á allt rétt á sér en það segir e.t.v. meira um þann sem skrifar en þann sem skrifað er um,“ segir Jakob.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert