Sala á ÍAV úrskurðuð ólögmæt

ÍAV á Austurlandi
ÍAV á Austurlandi mbl.is/Steinunn

Framkvæmd útboðs á sölu 39,86 prósenta hlutar íslenska ríkisins í Íslenskum aðalverktökum (ÍAV) var ólögmæt, jafnræðis bjóðenda var ekki gætt né réttra samskiptareglna. Þá var hæsta boði ekki tekið að mati dómkvaddra matsmanna.

Þetta kemur fram í dómi sem Hæstiréttur kvað upp á fimmtudag í máli JB Byggingafélags (JBB) og Trésmiðju Snorra Hjaltasonar (TSH) á hendur íslenska ríkinu. Skaðabótaskylda var þó ekki viðurkennd þar sem tilboð stefnenda hefði hvort eð er ekki verið hæst. Sigurbjörn Þorbergsson, lögmaður JBB og TSH, segir þetta áfellisdóm yfir framkvæmd einkavæðingarnefndar á sölu á hlut ríkisins í ÍAV. „Þetta snerist í sjálfu sér ekki um peninga af hálfu minna umbjóðenda heldur um að menn vildu að leikreglur yrðu virtar og að menn yrðu ekki hafðir að fíflum.“

Jarðboranir buðu hæst

Þrátt fyrir að einkavæðingarnefnd hefði metið það sem svo á sínum tíma að tilboð EAV hefði verið hæst og að því bæri að taka, komust tveir dómkvaddir matsmenn að þeirri niðurstöðu að tilboð Jarðborana hefði verið hæst.

Því gætu Jarðboranir átt skaðabótakröfu á ríkið sem byggir á sömu kröfu og vísað var frá í Hæstarétti.

Bent Einarsson, forstjóri Jarðborana, vildi ekki tjá sig mikið um málið í gær. „Við vorum að fá þennan úrskurð í hendur í dag og ég get ekkert annað sagt en að við munum láta lögmenn okkar fara yfir málið.“ Jarðboranir eru í 100 prósenta eigu Geysis Green Energy en þar er Atorka Group stærsti hluthafinn. Samkvæmt heimildum 24 stunda funduðu forsvarsmenn Atorku og Jarðborana í gær um næstu skref í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert