Mikið magn fíkniefna fannst

Höskuldur Birkir Erlingsson, lögregluvarðstjóri Blönduósi ásamt Freyju
Höskuldur Birkir Erlingsson, lögregluvarðstjóri Blönduósi ásamt Freyju

Um miðjan dag í gær var ökumaður stöðvaður á suðurleið um umdæmi lögreglunnar á Blönduósi.  Tilefnið var of hraður akstur en ökumaðurinn hafði mælst á 112 kílómetra hraða í Víðidal.  Við nánari skoðun kom í ljós að ökumaðurinn hafði verið sviptur ökuréttindum og því réttindalaus við aksturinn. Lögreglumönnum fannst ástæða til að kanna með ástand ökumannsins einnig en þá kom í ljós að hann var að aka undir áhrifum fíkniefna.
 
Var hann færður á lögreglustöðina á Blönduósi þar sem leitað var í bifreið hans.  Við þá leit fannst mikið magn fíkniefna eða á annað hundrað grömm af amfetamíni og kókaíni.  Ökumaðurinn viðurkenndi sölu og dreifingu á fíkniefnum sl. vikur og er núna laus úr haldi lögreglunnar, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

 Við leitina var notaður fíkniefnahundur lögreglunnar á Blönduósi, Freyja sem er nýkomin úr starfsleyfisúttektarprófi hjá ríkislögreglustjóranum.  Fór Freyja alveg á kostum og er ljóst að hluti efnanna hefði ekki fundist ef hennar hefði ekki notið við, segir í tilkynningu frá lögreglunni á Blönduósi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert