Sat fullur undir stýri meðan bíll var dreginn á land

Við Ölfusárósa.
Við Ölfusárósa.

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt karlmann til að greiða 160 þúsund krónur í sekt og svipt hann ökuréttindum í 2 ár fyrir að sitja ölvaður undir stýri bíls, sem verið var að draga úr land í fjörunni við veitingastaðinn Hafið bláa við Ölfusárósa.

Fram kemur í dómnum, að áfengismagn í blóði mannsins hafi verið 3,09‰.

Lögreglan á Selfossi fékk tilkynningu um það dag einn í september sl. að verið væri að draga upp jeppabifreið í sandfjöru neðan við Hafið bláa. Þegar lögreglumenn komu á staðinn sat maðurinn undir stýri á jeppa í fjörunni. Einnig var sofandi farþegi í bílnum.

Ökumaður björgunarsveitarbíls, sem þarna var einnig, sagðist hafa verið beðinn um að draga jeppa upp úr fjörunni þar sem farið hafi verið að flæða að honum. Þegar hann kom á staðinn var farþegi sofandi í aftursætinu en annar maður kom gangandi frá veitingastaðnum. Björgunarsveitarmaðurinn sagðist hafa tengt spil við jeppann, hinn maðurinn settist undir stýri og síðan var jeppinn dreginn um15-20 metra í fjörunni. Björgunarsveitarmaðurinn sagðist ekki hafa áttað sig á að hinn maðurinn var drukkinn fyrr en lögreglan kom á vettvang.

Fram kom við yfirheyrslur að fjórir menn voru í jeppanum þegar honum var ekið í fjöruna. Þrír voru drukknir, þar á meðal eigandi jeppans, en einn ódrukkinn og ók hann bílnum í fjöruna. Það var bíleigandinn, sem síðar var ákærður en verjandi hans krafðist sýknu á þeirri forsendu, að um neyðarrétt hafi verið að ræða og maðurinn hefði verið að hjálpa til við að bjarga bílnum úr fjörunni en þar hefði bifreiðin verið föst í sandinum með bilaða kúplingu.

Þessu hafnaði dómurinn á þeirri forsendu, að einn ódrukkinn maður hefði verið í hópnum og það hafi bíleigandinn vitað. Segir í niðurstöðu dómsins, að kúpling jeppans hafi verið ónýt auk þess sem jeppinn var tengdur með togvír í spil björgunarsveitarbifreiðarinnar allan þann tíma sem maðurinn sat undir stýri. Þrátt fyrir þetta yrði ekki hjá því komist að beita viðurlögum eins og greini í umferðarlögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert