Bílarnir til baka

 Helstu bílaumboð landsins íhuga alvarlega að senda nýja bíla, sem komnir eru hingað til lands, aftur til birgja sinna í Evrópu og Asíu til að grisja lagera sína í ljósi minnkandi bílasölu.

Bílaumboð Ingvars Helgasonar hefur óskað eftir því við birgja sína að þeir taki aftur við bílum sem fyrirtækið pantaði og hingað eru komnir, en fyrirtækinu hefur enn ekki borist svar um hversu marga bíla það fær leyfi fyrir að senda til baka.

„Við erum að reyna að fá að senda til baka fleiri bíla heldur en færri, en það er hægara sagt en gert. Við myndum gjarnan vilja losa sem mest, því það er sjálfsagt ódýrast fyrir alla þegar upp er staðið, en það er eins og gengur hjá birgjum almennt að þeir geta ekki tekið við öllum þeim bílum sem við viljum senda til baka,“ segir Loftur Ágústsson, markaðsstjóri hjá Ingvari Helgasyni. Hann vill ekki gefa upp fjölda þeirra bíla sem fyrirtækið hefur óskað eftir að fá að senda aftur úr landi. „Þetta eru bílar sem við áætluðum að myndu seljast í árferði eins hér var á bílamarkaði. Þörf bílaumboðanna nú á að fá að senda bíla úr landi er mjög mikil, enda horfum við upp á verulegan samdrátt í sölu á nýjum bílum.“

Egill Jóhannsson, framkvæmdastjóri Brimborgar, segir ekki standa til hjá fyrirtækinu að senda bíla til baka til birgja að svo stöddu, en útilokar ekki að eftir því verði leitað. „Við erum nokkuð sáttir við lagerstöðuna hjá okkur í dag, þó að við myndum vilja hafa lagerinn minni.“

Engir fleiri nýir bílar á leiðinni

Brimborg brást við minnkandi eftirspurn eftir nýjum bílum í nóvember og hætti þá að panta bíla fyrir lager fyrirtækisins sem telur nú um 450 bíla. Nú er svo komið að fyrir utan nokkra bíla sem koma til landsins í mánuðinum eru fleiri bílar ekki væntanlegir til landsins í bráð. „Við erum hættir að panta og því eru engir bílar í pípunum hjá okkur. Eftirspurnin er mjög lítil í dag og hefur minnkað hratt og það sem menn eru að reyna að gera er að laga birgðirnar að eftirspurn.“

Jón Trausti Ólafsson, markaðsstjóri Heklu, segir fyrirtækið ekki hafa sent bíla til baka til birgja sinna, en það sé ein þeirra leiða sem fyrirtækið skoði nú í ljósi minnkandi bílasölu.

Ekki náðist í forsvarsmenn Toyota við vinnslu fréttarinnar.

Í hnotskurn
Nýskráningum ökutækja hefur fækkað um 0,6 % fyrstu 130 daga ársins miðað við sama tíma í fyrra. Fyrstu 53 daga ársins hafði nýskráning ökutækja aukist um 46,8% miðað við sama tímabil í fyrra.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert