Magnús gagnrýnir nýjan meirihluta

Magnús Þór Hafsteinsson.
Magnús Þór Hafsteinsson.

Magnús Þór Hafsteinsson, varabæjarfulltrúi Frjálslyndra og óháðra á Akranesi, gagnrýnir harðlega að Karen Jónsdóttur, fulltrúi flokksins í bæjarstjórn skuli hafa gengið til liðs við Sjálfstæðisflokkinn og myndað með þeim hreinan meirihluta. Segir Magnús að það sem hafi gerst sé bara klassískt valdarán.

Gísli S. Einarsson, bæjarstjóri, hefur einnig gengið í Sjálfstæðisflokkinn. Ástæðan er fyrst og fremst ítrekuð ummæli Magnúsar Þórs í fjölmiðlum um andstöðu hans við hugsanlega komu flóttamanna í bæinn.

„Þetta er þvílíkur afleikur hjá sjálfstæðismönnum. Ég bendi á að þetta verður mjög veik bæjarstjórn. Þrír bæjarfulltrúar hafa hætt störfum frá því kjörtímabilið hófst og inn hafa komið pólitískir viðvaningar. Þarna er að skapast hálfgert Reykjavíkurástand. Það má ekkert út af bera, þá er ég kominn inn sem varabæjarfulltrúi,” segir Magnús við fréttavefinn Skessuhorn. 

Magnús segist telja, að sjálfstæðismenn hafi frá upphafi sýnt Frjálslynda flokknum mikla lítilsvirðingu í meirihlutasamstarfinu.

„Það sem gerist núna er bara klassískt valdarán. Karen hleypur með sitt umboð, sem hún hefur frá kjósendum Frjálslyndra, yfir í Sjálfstæðisflokkinn. Hún er ekki bara að bregðast kjósendum heldur líka félögum sínum á listanum. Ég held að þetta verði bæjarstjórninni dýrkeypt. Nú förum við í Frjálslyndum að spýta í lófana og kjósendur fá að dæma þennan gjörning í næstu kosningum,” segir Magnús.

Skessuhorn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert