Yngri en 23 ára bannað að tjalda nema í fylgd með fullorðnum

Á fundi í menningarmála- og safnanefnd Akraneskaupstaðar í liðinni viku var rætt um það ástand sem skapast hefur á tjaldstæðum bæjarins við Kalmansvík undanfarin ár þegar bæjarhátíðin Írskir dagar hafa farið fram. Nefndin afgreiddi málið með því að samþykkja samhljóða bókun þess efnis að tjaldstæðin verði eingöngu fyrir 23 ára og eldri þessa umræddu helgi, nema viðkomandi séu í fylgd með fullorðnum.

Á vef Skessuhorns kemur fram að segja má að hér sé farin svokölluð Akureyrarleið, en eins og kunnugt er ákváðu bæjaryfirvöld á Akureyri að setja sambærileg aldurstakmörk á tjaldstæði bæjarins um verslunarmannahelgina í fyrra, þegar hátíðin Ein með öllu fór þar fram.

Bókun nefndarinnar var svohljóðandi: „Menningarmála- og safnanefnd beinir því til bæjarráðs að tjaldsstæði bæjarins við Kalmansvík verði auglýst sem fjölskyldutjaldstæði á Írskum dögum 2008. Aðgangur verði takmarkaður við fjölskyldufólk eða einstaklinga 23 ára eða eldri.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert