Bandaríkjamenn ekki sáttir við Wii Fit

Tölvuleikurinn Wii Fit hefur svo sannarlega slegið í gegn um allan heim en nú virðist sem Bandaríkjamenn séu orðnir ósáttir við þennan heilsusamlega leik og vilji jafnvel ganga svo langt að selja viðvaranir á leikinn þar sem foreldrum er ráðlagt að leyfa ekki börnum að spila hann.

Meðal þess sem leikurinn gerir er að mæla BMI-þyngdarstuðul leikmanna, eða Body Mass Index eins og það nefnist á ensku, og það er einmitt sá hluti leiksins sem Bandaríkjamenn eru ósáttir við.

Eftir að leikurinn tjáði 10 ára gamalli stúlku, sem er sögð vera hraust og laus við alla aukaþyngd, að hún væri feit hafa spjallborð vestanhafs hreinlega logað. Mörgum þykir nóg að tískutímarit, kvikmyndir og tónlistarmyndbönd sendi þau skilaboð til ungra barna að þau séu of feit en botninum er náð þegar tölvuleikirnir gera það líka.

Nú hefur Tam Fry, talsmaður National Obesity Forum sem eru bandarísk forvarnarsamtök gegn offitu, lagt orð í belg og gagnrýnir harðlega að BMI-stuðullinn sé orðinn partur af tölvuleik.

„Ég er stórhneykslaður á því að börnum sé sagt að þau séu feit. Ég myndi hafa miklar áhyggjur af því ef börn væru í þessum leik og held að leikurinn ætti að hafa viðvaranir til foreldra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert