Enn hústaka í miðborginni

Samkvæmt ýtarlegri könnun forvarnasviðs Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins á ástandi mannlausra húsa í miðborg Reykjavíkur, hefur verið brotist inn í þrjú hús í miðborginni frá því að húseigendum var gert að loka auðum húsum í byrjun apríl.

Góð viðbrögð húseigenda

Eftir að umræða um bágborið ástand miðborgarinnar komst í hámæli í marsmánuði, réðst forvarnasvið slökkviliðsins í umfangsmikla kortlagningu á auðum húsum í miðbæ Reykjavíkur. Sú vinna leiddi í ljós að slökkviliðið taldi tölu auðra húsa í miðbænum vera um sextíu talsins. Skráðum eigendum þeirra var gert að loka húsunum í kjölfarið og að sögn Ólafs R. Magnússonar, deildarstjóra forvarnasviðs Slökkviliðs höfuðborgarinnar, létu viðbrögðin ekki á sér standa.

„Þetta gekk ótrúlega vel fyrr sig því að allir húseigendur brugðust við og lokuðu húsunum sínum. En eins og gerist virðast einhverjir sækjast eftir því að komast inn í þessar byggingar og við töldum því rétt að fylgjast með þessu og eins hvernig staða þeirra væri í dag.“

Tvö þeirra húsa, sem brotist hefur verið inn í nú eftir að þeim var lokað í apríl, standa við Bergstaðastræti en eitt þeirra stendur við Freyjugötu. Samkvæmt heimildum 24 stunda eru ummerki um að fólk hafi hafst við í húsunum.

„Við gerðum eigendum þeirra viðvart og kröfðumst þess að húsunum yrði lokað. Við munum kanna ástand þeirra aftur eftir helgi og sinni eigendur ekki fyrirmælum okkar verður húsum þeirra lokað á þeirra kostnað.“

Nágrannar í hættu

„Það er greinilegt að það vantar vakt við húsin ef það kemur ekki í ljós fyrr en slökkviliðið fer í einhverja sérúttekt að fólk hafist við í húsunum með tilheyrandi eldhættu fyrir okkur nágrannana,“ segir Kári Halldór Þórsson, leikstjóri og íbúi við Bergstaðastræti.

„Borgin á að skylda húseigendur til að vakta hús sín á meðan þau eru látin standa auð, þangað til stafar okkur nágrönnunum hætta af þessum húsum.“

Í hnotskurn
Samkvæmt skýrslu borgarinnar var talið að 37 hús stæðu auð í miðborginni Þá var talið að hústökufólk hefði hreiðrað um sig í sumum þeirra.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert