Engir orkusamningar á næstunni

Af Hengilsvæðinu þar sem til stóð að byggja Bitruvirkjun. Myndin …
Af Hengilsvæðinu þar sem til stóð að byggja Bitruvirkjun. Myndin er tekin af vefnum hengill.nu.

Orkuveita Reykjavíkur hefur gert raforkusölusamninga vegna álvers í Helguvík upp á 100 MW. Ekki hafa verið gerðir aðrir orkusölusamningar og telur Hjörleifur Kvaran, forstjóri OR, ólíklegt að hægt verði að gera fleiri samninga á næstunni þar sem fallið hefur verið frá framkvæmdum við Bitruvirkjun.

Samkvæmt áætlun OR var gert ráð fyrir því að framleiðslugeta Bitruvirkjunar yrði 135 MW en Hverahlíðarvirkjunar 90 MW. Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti á fundi í morgun að halda áfram undirbúningi virkjunar í Hverahlíð í samræmi við álit Skipulagsstofnunar og í samkomulagi við sveitarfélagið Ölfus en hætta við Bitruvirkjun, sem Skipulagsstofnun hefur lagst gegn.

Að sögn Hjörleifs var búið að gera orkusölusamning við Alcan vegna fyrirhugaðrar stækkunar í Straumsvík en sá samningur datt upp fyrir um síðustu áramót. „Nú er eingöngu í gildi raforkusamningur vegna byggingu álvers í Helguvík þar sem við erum búin að ráðstafa 100 MW," segir Hjörleifur.

Kísilverksmiðja í Þorlákshöfn væntanlega út af borðinu

Á árinu 2010 og 2011 er gert ráð fyrir að 90 MW muni bætast við með  stækkun Hellisheiðarvirkjunar sem nú er í gangi auk 90 MW með tilkomu Hverahlíðarvirkjunar. Þannig að af þeim 180 MW sem falla til við þessar framkvæmdir hefur OR ráðstafað 100 MW til Helguvíkur. Öðru hefur ekki verið ráðstafað með beinum hætti, að sögn Hjörleifs.

„Við vorum í viðræðum við aðila sem ætlaði sér að setja upp orkufrekan iðnað í Þorlákshöfn, kísilverksmiðju sem framleiðir sólarflögur. Við höfum verið í viðræðum við hann um kaup á raforku og hann hafði hug á að setjast niður í Þorlákshöfn. En miðað við þessa stöðu sem nú er komin upp þá sýnist mér að það sé útaf borðinu því við höfum enga orku fyrir hann.

Við höfum 80 MW til ráðstöfunar og eitthvað af því verðum við að nota til að mæta aukinni orkuþörf á okkar veitusvæði," segir Hjörleifur og bætir við að aukningin sé um 5 MW á ári. „Ég sé því ekki fram á það að við gerum frekari orkusölusamninga á næstunni," segir Hjörleifur.

Samþykkt að kaupa 5 vélasamstæður með alls 225 MW framleiðslugetu

Hjörleifur segir að það hafi verið samþykkt á stjórnarfundi OR í morgun að kaupa fimm vélarsamstæður til raforkuframleiðslu en hver vélasamstæða framleiðir 45 MW og er því framleiðslugeta vélasamstæðanna fimm 225 MW alls. Tvær vélasamstæður verða settar upp í Hellisheiðarvirkjun og tvær í Hverahlíðarvirkjun.

Samþykkt var að kaupa fimmtu vélasamstæðuna en ekki er búið að ákveða hvar hún verður sett niður. Segir Hjörleifur afgreiðslutími slíkra vélasamstæða langan eða þrjú ár.

„Við erum með ýmis svæði til skoðunar þar sem við getum hugsanlega virkjað 45 MW til viðbótar," segir Hjörleifur. Hann segir þetta enn til skoðunar og sú raforka sé ekki til sölu enda ekki hægt að selja það sem ekki hefur verið fundið.

Kostnaður vegna Bitruvirkjunar um 1 milljarður króna

Að sögn Hjörleifs var rætt við bæjarstjórann í Ölfusi í gær strax eftir að álit Skipulagsstofnunar lá fyrir og ljóst að viðræður muni halda áfram næstu daga þar sem farið verður betur yfir þessi mál og þá stöðu  sem nú er upp. „Hún er ekki bara erfið fyrir okkur heldur einnig þá," bætir hann við.

Hjörleifur segir að ákvörðun um að hætta við framkvæmd við Bitruvirkjun hafi víðtæk áhrif, ekki bara hjá OR. „Við buðum út borverkefni fyrir næsta ár sem Jarðboranir hafa séð um. Þessi ákvörðun núna um að hætta undirbúningi við Bitruvirkjun, þýðir að það verður helmingsminnkun á því verkefni. Síðan erum við með samninga við verkfræðistofur sem hafa verið að vinna að undirbúningi virkjunar fyrir okkur. Við hönnun og teikningar. Það fer allt á bið núna. Þannig að þetta kemur við fjölda manns," segir Hjörleifur.

Undirbúningur að Bitruvirkjun hefur staðið yfir lengi en fyrsta holan var boruð árið 1994. Alls hafa verið boraðar þrjár holur. Hver borhola kostar 250-300 milljónir króna og segir Hjörleifur ekki ólíklegt að kostnaður sé nálægt einum milljarði króna sem Orkuveita Reykjavíkur hefur sett í verkefnið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert