Barnaverndarstofa rannsakar málið

Barnaverndarstofa mun rannsaka framgöngu Barnaverndar Reykjavíkur í máli tveggja drengja, en móðir þeirra lést vegna ofnotkunar fíkniefna nýverið. Konan hafði lengi verið háð fíkniefnunum og þjáðist jafnframt af geðhvarfasýki.

Ættingjar konunnar hafa kvartað yfir störfum Barnaverndar Reykjavíkurborgar og staðfestir Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, að kvörtunin hafi borist embættinu. 

Ingibjörg S. Benediktsdóttir, móðursystir ungu konunnar, er mjög harðorð í garð barnaverndar í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Málið virðist ekki vera einsdæmi, en um tuttugu börn, sem Barnavernd Reykjavíkur hefur haft afskipti af, hafa misst forsjárforeldri sitt á síðustu tólf mánuðum, en nær eingöngu er um að ræða mæður.

Málefni barna fíkniefnaneytenda koma reglulega inn á borð embættis umboðsmanns barna. Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna, segir embættið ekki taka á einstökum málum, hins vegar geti það stuðlað að breytingum, ráðlagt og leiðbeint fólki sem á í vanda.

Barnaverndarstofa gegnir eftirlitshlutverki og fylgist með störfum barnaverndarnefnda um allt land. Bragi segir að farið verði yfir umrætt mál á grundvelli kvörtunarinnar sem borist hafi, en hún sé hliðstæð efni greinar Ingibjargar sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Óskað verður eftir upplýsingum um málið hjá Barnavernd Reykjavíkur og frekari fyrirspurnum beint til nefndarinnar ef ástæða þykir til.

Bragi segir mikilvægt að farið verði yfir alla verkferla og að læra af því ef eitthvað hefur farið úrskeiðis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert