Tvær ríkisstjórnir við völd?

Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Kristinn H. Gunnarsson á Alþingi.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Kristinn H. Gunnarsson á Alþingi. mbl.is/Ómar

Þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðu á Alþingi í dag, að svo virtist vera sem tvær ríkisstjórnir sætu við völd því tvenns konar stefna væri í ýmsum málum. Forsætisráðherra sagði að þá yrði erfitt fyrir stjórnarandstöðuna að gera upp við sig hvorri stjórninni hún ætti að vera á móti.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, gerði hvalamálið að umtalsefni í fyrirspurnartíma og spurði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hvort ríkisstjórnin gæti verið opinberlega með tvenns konar stefnu í málinu og hvort utanríkisráðherra gæti verið á móti hrefnuveiðum heimafyrir en varið þær erlendis. Spurði Steingrímur hvort vænta mætt að fleiri dæmi kæmu fram um slíkt tvíeðli stjórnarinnar.

Geir sagði, að hér á landi væru skiptar skoðanir um hvalveiðar, einnig innan ríkisstjórnarinnar, og ekkert væri fjallað um þær í stjórnarsáttmála. Sagðist hann ekki gera mikið úr því þótt ágreiningur kæmi upp á milli stjórnarflokkanna í einu máli eins og þessu.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, sagði þá að ekki væri aðeins ágreiningur í stjórninni um hvalamál heldur einnig um eftirlaunalög, virkjanamál og álversmál. Spurði Kristinn hvort ríkisstjórnin muni ná að  sitja út sumarið. Þessu svaraði Geir með einföldu jái.

Kristinn sagði, að þá myndu sitja tvær ríkisstjórnir í sumar. Annars vegar ríkisstjórnin sem ætlaði að afnema eftirlaunalögin og hins vegar sú sem ætlaði að halda þeim í gildi. Annars vegar stjórn sem ætli að hefja hvalveiðar og hins vegar stjórn sem ætli að banna þær, annars vegar ríkisstjórn sem ætli að byggja ný álver og hins vegar ríkisstjórn sem ætli að koma í veg fyrir það; og annars vegar stjórn sem ætli að virkja í neðri hluta Þjórsár og hins vegar stjórn sem ætli að koma í veg fyrir það. „Við getum ekki búið við að hér sitji tvær ríkisstjórnir við völd samtímis," sagði Kristinn.

„Þetta var mjög athyglisvert  hjá háttvirtum þingmanni," sagði Geir. „Og miðað við þetta verður mjög erfitt fyrir hann að gera upp við sig hvorri ríkisstjórninni hann ætlar að vera á móti."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert