Höfum tekið á móti 481 flóttamanni

Starfsmenn Rauða hálfmánans reyna að aðstoða íraska flóttamenn
Starfsmenn Rauða hálfmánans reyna að aðstoða íraska flóttamenn AP

 Rekja má móttöku íslenskra stjórnvalda á flóttafólki í hópum allt til þess að tekið var á móti 52 Ungverjum 1956. Síðan þá hefur verið tekið á móti samtals 481 flóttamanni. Síðan flóttamannaráð, nú flóttamannanefnd, var stofnað 1996 hefur verið tekið næstum árvisst á móti flóttamannahópum.

Árin 2005 og 2007 var tekið á móti fólki frá Kólumbíu. Eru það einstæðar mæður, börn þeirra og einhleypar konur sem voru metnar í mikilli áhættu. Verður konum og börnum áfram boðið til landsins í ljósi þess að íslenskar aðstæður, viðhorf til einstæðra foreldra og félagsleg aðstoð við þá þykir mjög jákvæð hér á landi á alþjóðlegum mælikvarða.

Tíu sveitarfélög hafa tekið á móti flóttamönnum

Reykjavíkurborg tók á móti hópunum 2005 og 2007, en alls hafa tíu sveitarfélög tekið á móti hópum. Það er ríkisstjórn Íslands sem tekur hverju sinni ákvörðun um að taka á móti flóttafólki. Við þá ákvörðun er tekið mið af tillögu flóttamannanefndar. Móttakan og aðstoð fyrsta árið er síðan samstarfsverkefni félags- og tryggingamálaráðuneytisins, utanríkisráðuneytisins, móttökusveitarfélags og Rauða kross Íslands. Að þessu sinni hefur verði leitað til Akraness.

Í frétt á vef félagsmálaráðuneytisins kemur fram að flóttamennirnir sem nú koma til landsins búi í Al-Waleed búðunum. Þar búa Palestínumenn sem flúðu Írak í kjölfar innrásar í landið 2003. Aðstæður í Al-Waleed búðunum eru skelfilegar, fólkið býr við stöðuga hættu, skort á vatni og heilbrigðisþjónustu, kulda á vetrum og hita á sumrin. Í þessum búðum voru tæplega 2.000 manns í mars síðastliðnum, að því er segir á vef ráðuneytisins.

Íbúafundur á Akranesi 26. maí

„Tveir fulltrúar flóttamannanefndar funduðu tvívegis með Akurnesingum í apríl síðastliðnum. Þessir fulltrúar þekkja verkefnið best af hálfu nefndarinnar og hafa komið beint að móttökunni frá 2005, tekið viðtöl við fólkið í dvalarlandi, kynnt þeim íslenskar aðstæður, aðstoðað við komuna til Íslands og unnið að verkefninu hér á landi.

Annar fulltrúanna hefur undirbúið samningana við sveitarfélög og Rauða kross Íslands. Fyrri fundurinn var með félagsmálastjóra, formanni félagsmálaráðs og fulltrúa Rauða kross deildarinnar á Akranesi. Seinni fundurinn var með bæjarfulltrúum, fulltrúum í félagsmálaráði, starfsmönnum ráðsins og bæjarstjóra auk félagsmálastjóra Reykjanesbæjar sem greindi frá reynslu sveitarfélagsins af móttöku flóttafólks 2001.

Var meðal annars farið ítarlega yfir móttöku flóttafólksins, viðmiðunarreglur flóttamannanefndar kynntar og skýrsla síðasta flóttamannaverkefnis afhent. Bæjarfulltrúum og félagsmálaráði gafst kostur á að spyrja ýmissa spurninga sem fulltrúar flóttamannanefndar svöruðu.

 Mánudaginn 26. maí næstkomandi verður haldinn kynningarfundur með íbúum á Akranesi, fulltrúum sveitarstjórnar, flóttamannanefnd og Rauða krossinum það sem verkefnið verður kynnt og spurningum svarað," að því er fram kemur á vef félagsmálaráðuneytisins

Upplýsingar á vef félagsmálaráðuneytisins 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert