200 börn í fóstri

Ef systkini, sem eiga hvert sinn föðurinn, missa móður sína er hætta á að þau alist upp hvert á sínum staðnum. Ástæðan er að forræðið fer sjálfkrafa til eftirlifandi foreldris sé það fyrir hendi, eins og gerðist nýlega þegar tveir bræður misstu móður sína vegna fíkniefnaneyslu og fjallað var um í 24 stundum í gær.

Um tuttugu börn hafa misst foreldra sína vegna eiturlyfja í Reykjavík á undanförnu ári og hafa þau sum farið til eftirlifandi foreldris (yfirleitt föður), önnur til annarra ættingja og svo enn önnur í fóstur til vandalausra. Er hið síðastnefnda óalgengast, að sögn Halldóru Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur.

Ef barnið á ekki foreldri á lífi fer forsjáin yfir til barnaverndarnefndar, sem í samvinnu við Barnaverndarstofu finnur barninu heimili, að sögn Braga Guðbrandssonar, forstjóra Barnaverndarstofu.

Er fyrst leitað til ættingja barnsins um að taka við barninu en finnist enginn viljugur aðili eru fundnir fósturforeldrar á þar til gerðri skrá Barnaverndarstofu.

„Það hefur alltaf verið nægt framboð af viljugu fólki til að taka börn í fóstur á Íslandi,“ segir Bragi. Sextán börn voru sett í varanlegt fóstur hérlendis í fyrra og er það svipað og undanfarin ár.

Sé skoðað hve mörg börn voru í varanlegu fóstri á landinu í fyrra voru þau tvö hundruð talsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert