Fá að hjóla í Þykkvabæjarfjöru gegn þúsund kr. gjaldi

Bændur í Þykkvabæ hafa skipulagt svæði í Þykkvabæjarfjöru fyrir þá sem iðka svonefnd mótorkross á vélhjólum. Kostar eitt þúsund krónur að fá að hjóla í fjörunni.

Markús Ársælsson í Hákoti, sem er í forsvari fyrir bændur hvað þetta snertir, segir að umferðin á svæðinu hafi mikið verið að aukast. Menn hafi verið hingað og þangað að hjóla og bændur vilji þá frekar leyfa mönnum að vera og iðka sína íþrótt en skipuleggja hvernig að þessu er staðið og hafa sérstakt svæði merkt undir aksturinn.

Markús sagði að til þessa hefði aksturinn á svæðinu verið óskipulagður og menn hefðu þá stundum verið þar sem þeir síður máttu vera. Með þessu væri reynt að koma í veg fyrir að hjólað væri á stöðum þar sem gróður væri í hættu. „Það er verið að reyna að útbúa aðgengi þannig að allir séu sáttir, bændur séu sáttir og þeir séu líka sáttir," sagði Markús.

Hann sagði að hugmyndin væri síðan sú ef til vill ef vel gengi að koma hugsanlega upp braut og gera fleira fyrir þá sem iðkuðu þessa íþrótt.

Markús sagði að koma þyrfti upp merkingum á svæðinu og aðstöðu fyrir iðkendur til þess að taka hjólin af bílum sínum, þannig að það væri nokkur kostnaður samfara þessu. Þeir stóluðu hins vegar bara á heiðarleika vélhjólamanna því þeir ættu sjálfir að sjá um að leggja gjaldið inn á bankareikning.

Markús sagði að fjaran væri stór og nóg pláss til að hjóla. Þykkvabæjarfjara væri sjálfsagt einir sex kílómetrar á lengd.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert