Mistök gerð við setningu eftirlaunalaga

Frá Silfri Egils í Sjónvarpinu í dag.
Frá Silfri Egils í Sjónvarpinu í dag.

Formenn stjórnmálaflokkana voru sammála um það í umræðum í Silfri Egils í Sjónvarpinu í dag, að mistök hefðu verið gerð þegar lög um eftirlaun þingmanna, ráðherra og æðstu embættismanna voru sett árið 2004.  

Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, sagði að ákveðin mistök hefðu verið gerð við setningu frumvarpsins, aðallega varðandi lífeyrisrétt ráðherra. Hins vegar væri ekki mjög einfalt að breyta þessu því allir launþegar á Íslandi hefðu rétt á því að vera á eftirlaunum en vera jafnframt úti á vinnumarkaði. Guðjón sagði eðlilegt að byrja á að taka fyrir það, að ekki væri hægt að vera bæði á opinberum eftirlaunum og góðum launum í starfi hjá ríkinu.

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokks, sagði að gerð hefðu verið ákveðin mistök við setningu laganna þegar menn geti við ákveðnar ástæður fengið bæði laun og eftirlaun frá ríkinu. Eðlilegast væri að vinna mál sem þetta í samvinnu allra flokka. Geir sagði, að þessi lög hefðu einnig orðið til að skerða lífeyrisrétt venjulegra alþingismanna, sem sitja í 10-12 ár á Alþingi. Sagði Geir að þótt ekki náist fyrir lok vorþingsins, að laga það, sem mest hefur verið gagnrýnt, verði málið tekið aftur upp í haust. 

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að það væri skylda formanna stjórnmálaflokkanna að fara yfir umdeildustu atriði laganna og sjá hvaða niðurstöðu menn komist að. Sátt þurfi að skapast um málið en margt í því hefði verið rangtúlkað. 

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði að gerð hefðu verið gerð mistök í lagasetningunni og ákveðin réttindi til að taka bæði laun og eftirlaun hefðu orðið  mjög sýnileg. Þetta hefði fólki sviðið mjög og best væri ef stjórnmálaflokkarnir kæmust að samkomulagi um að finna farsæla lausn.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sagði að gerð hefðu verið mistök, sem hann bæri nokkra ábyrgð á. Mistökin hefðu falist í því, að menn vöruðu sig ekki á því, að með því að færa hugsanlegan eftirlaunaaldur niður væri verið að lengja það tímabil, sem menn gætu verið á lífeyri og góðum launum hjá hinu opinbera. Þetta væri ekki hægt að verja vegna þess að slík kjör væru of rífleg.

Steingrímur sagði, að stuðningur væri í hans flokki við frumvarp Valgerðar Bjarnadóttur, varaþingmanns Samfylkingarinnar, um að afnema þennan rétt. Steingrímur sagði, að það stæði ekki á hans flokki, að fara í breytingar á þessu kerfi og hvatti stjórnarflokkana til að koma fram með frumvarp um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert