Hlýnun ekki ógn á Íslandi?

Mengunarský yfir París.
Mengunarský yfir París. AP

Mikill meirihluti jarðarbúa telur hlýnun andrúmsloftsins vera alvarlega ógn, að því er kemur fram í nýrri könnun, sem Gallup hefur gert í 57 ríkjum. Í öllum þessum löndum, nema á Íslandi, telja menn að loftslagsbreytingar hafi alvarleg áhrif á umhverfið þar sem þeir búa. 

Í tilkynningu frá Gallup International kemur fram að 66% þátttakenda í könnuninni telji að hlýnun andrúmsloftsins hafi áhrif á þeirra heimaslóðum. Þá sögðust 85% hafa gripið til ráðstafana til að draga úr mengun.

Gallup segir, að í öllum löndum, að Íslandi undanskildu, hafi meirihluti svarenda verið sammála þeirri fullyrðingu að hlýnun andrúmsloftsins hafi þegar haft alvarleg áhrif á heimkynni þeirra. Meirihluti svarenda á Íslandi, eða 59%, sagðist hins vegar vera ósammála fullyrðingunni. Gallup segir, að líkleg skýring sé sú áhersla, sem Íslendingar leggja á sjálfbæra nýtingu orkulinda og hve hreint vatn og andrúmsloftið sé á Íslandi.

Mestar áhyggjur af ástandinu komu fram í Albaníu þar sem 97% svarenda sögðust sammála þeirri fullyrðingu, að loftslagsbreytingar hefðu haft áhrif þar. Hlutfallið var 93%, í Hong Kong og 91% í Rúmeníu. 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert