Konur í Frjálslynda flokknum senda forseta Íslands áskorun

Konur í Frjálslynda flokknum hafa sent Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, áskorun um að neita að undirrita lagafrumvarp um breytingum á lögum um tekjuskatt.

„Við konur í Frjálslynda flokknum skorum hér með á herra Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands að neita að undirrita lagafrumvarp um breytingu á lögum um tekjuskatt þar sem meirihluti Alþingis gaf eftir skatta vegna söluhagnaðar lögaðila með afturvirkum hætti. Með því að neita að staðfesta lögin gefst þjóðinni tækifæri til að kjósa um frambúðargildi laganna.

Lagabreytingin brýtur í bága við almennu jafnræðisregluna í stjórnarskrá lýðveldisins þar sem felldir eru niður skattar fyrir ákveðinn hóp auðmanna en slík niðurfelling er fordæmislaus í sögu íslensku þjóðarinnar. Forsetinn hefur áður neitað að staðfesta meirihlutavilja þingsins og svarið eið að virða stjórnarskrá lýðveldisins.

Forsetanum ber að virða stjórnarskrána og vilja þjóðarinnar og ganga í berhögg við gerræðisleg vinnubrögð ríkisstjórnarinnar," samkvæmt tilkynningu frá konum í Frjálslynda flokknum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert