Sjöfaldar ævitekjur á einu ári

Laun æðsta stjórnanda Kaupþings árið 2006 jafngiltu því að í kringum 10. mars væri hann búinn að vinna sér inn upphæð sem venjulegt verkafólk er alla starfsævina að strita fyrir og það tók 321 fullvinnandi verkakonu allt árið að vinna fyrir launum hans. Þetta kemur fram í nýrri þjóðhagsspá Alþýðusambands Íslands sem kynnt var í dag.

Samkvæmt nýrri hagspá hagdeildar ASÍ harðnar nú á dalnum í íslensku efnahagslífi. Eftir mikinn gang í hagkerfinu á liðnum árum er nú komið að lokum hagsveiflunnar. Framundan sé snörp aðlögun hagkerfisins með tveggja ára samdrætti landsframleiðslu.

Heimilin farin að draga saman seglin

Segir í hagspá ASÍ að heimilin séu þegar farin að draga saman seglin í kjölfar gengisfalls og mikillar verðbólgu og við blasi mikill samdráttur á íbúðamarkaði og í atvinnuvegafjárfestingum.

„Hagsveiflan endar því með hefðbundnum hætti: gengisfalli, mikilli verðbólgu, samdrætti í atvinnu og minnkandi kaupmætti."

Horfur í efnahagslífinu hafa áskömmum tíma breyst til hins verra. Síðasta haust var bjart yfir flestum hagspám og spáð var „mjúkri lendingu“ hagkerfisins í lok stóriðjuframkvæmdanna. Nú bendir á hinn bóginn flest til harkalegrar lendingar.

Alþjóðleg lausafjárkreppa ásamt miklu ójafnvægi í þjóðarbúskapnum hefur leitt til mikils gengisfalls krónunnar og innlendrar lánsfjárkreppu. Í kjölfarið hefur fylgt mesta verðbólga í 18 ár. Gagnvart þessari stöðu standa stjórnvöld ráðalítil, samkvæmt nýrri hagspá ASÍ.


Ákvörðun um ESB aðild ber að taka með langtímasjónarmið að leiðarljósi

„Þær raddir gerast því æ háværari að mikilvægt sé nú að skoða af fullri  alvöru inngöngu í Evrópusambandið og í framhaldinu að taka upp evru.   Á það hefur verið bent að aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru sé engin töfralausn á aðsteðjandi vanda en við hljótum að spyrja okkur að því hvort hag okkar sé betur borgið til lengri tíma utan sambandsins með tilheyrandi kostnaði við að halda úti minnstu fljótandi mynt í veröldinni.

Ákvörðun um Evrópusambandsaðild og upptöku evru er stór og felur í sér bæði kosti og galla. Hana ber því að taka með langtímasjónarmið að leiðarljósi. En ef við teljum að langtímahagsmunum okkar sé best borgið innan Evrópusambandsins og með upptöku evru þá er ekki eftir neinu að bíða því að til skamms tíma yrðu áhrifin jákvæð. Með því að stefna að evruupptöku fælist viss skuldbinding um að við ætluðum að ná tökum á efnahagsstjórninni og ákveðið ankeri fælist í því aðlögunarferli sem við yrðum að hefja strax. Óháð aðsteðjandi efnahagsvanda er gagnlegt að líta um öxl í lok hagsveiflunnar og skoða hvernig þjóðfélagið hefur þróast á undanförnum árum," að því er segir í hagspá hagdeildar ASÍ sem kynnt var á blaðamannafundi í dag.

Forsendur kjarasamninga munu væntanlega bresta

Segir í hagspánni að útlit sé fyrir að forsendur nýgerðra kjarasamningana muni bresta þegar kemur að endurskoðun í febrúar á næsta ári. Líkur eru á að kaupmáttur launa og ráðstöfunartekna dragist saman á næstu árum. 

Spá 20-25% raunlækkun á húsnæðisverði

Mikið framboð á ódýru lánsfé samhliða kerfisbreytingu á íbúðalánamarkaði, vaxandi kaupgetu og fjölgun landsmanna hefur á undanförnum árum  aukið eftirspurn og ýtt undir mikla fjárfestingu í  íbúðarhúsnæði.

Á árunum 2004-2007 voru samtals byggðar 12 þús. nýjar íbúðir en til samanburðar voru á tíu árum þar á undan byggðar um 16 þús. íbúðir. Flest bendir til þess að enn sé töluvert af íbúðarhúsnæði í byggingu sem komi á markaðinn síðar á þessu ári og því næsta.

Framboð á nýju húsnæði er því mjög mikið um þessar mundir á sama tíma og verulega hefur dregið úr eftirspurn. Ýmis merki hafa sést um samdrátt á fasteignamarkaði undanfarna mánuði, fáum kaupsamningum hefur verið þinglýst og verð á húsnæði lækkaði lítillega bæði í febrúar og marsmánuði.

Versnandi aðgengi heimila að lánsfé til íbúðakaupa, hækkandi vextir og aukin greiðslubyrði ásamt minnkandi kaupgetu og minni fólksfjölgun eru allt þættir sem draga úr eftirspurn eftir íbúðahúsnæði. 

Mikið framboð á húsnæði samhliða lítilli eftirspurn og erfiðri rekstrarstöðu byggingaverktaka mun knýja fram verðlækkun á íbúahúsnæði. Hagdeildin gerir ráð fyrir því að raunvirði húsnæðis lækki um 20-25% á næstu þremur árum.

Fjárfesting í íbúðarhúsnæði dragist saman um 12% á næsta ári

Horfur eru á að samdráttur í íbúðafjárfestinum verði sá mesti síðan um miðjan níunda áratuginn. Mjög erfitt er að fjármagna byggingaframkvæmdir um þessar mundir og dæmi um að úthlutuðum lóðum hafi verið skilað inn vegna fjármögnunarerfiðleika.

Því er spáð í hagspá ASÍ að fjárfesting í íbúðarhúsnæði standi í stað á þessu ári en dragist saman um 12% á því næsta og um 10% árið 2010.

Stýrivextir verði að jafnaði 12,6% á næsta ári

Hagdeild ASÍ telur líklegt að vextir haldist áfram mjög háir og hækki jafnvel enn frekar þar til verðbólga fer að hjaðna undir lok þessa árs en fari þá að lækka.

„Árið 2010 má vænta viðsnúnings í heimsbúskapnum sem mun m.a. valda því að vaxtamunur við útlönd fer hratt minnkandi. Þetta setur þrýsting á krónuna sem Seðlabankinn bregst við með því að hækka vexti. Við gerum ráð fyrir því að stýrivextir verði að jafnaði 15,5% á þessu ári, 12,6% á næsta ári og 13,2% 2010," segir í hagspá ASÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert