Fjöldahjálparstöð opnuð í Reykjavík ef þörf krefur.

Allt hrundi úr hillum í Lyfjum og heilsu í Hveragerði.
Allt hrundi úr hillum í Lyfjum og heilsu í Hveragerði. mbl.is/Kristinn

Rauði krossinn er viðbúinn að taka við fólki á höfuðborgarsvæðinu sem ekki kemst í húsaskjól hjá ættingjum og vinum. Verður fjöldahjálparstöð opnuð í Menntaskólanum í Hamrahlíð ef þörf krefur.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rauða krossinum.

Opnaðar hafa verið fjöldahjálparstöðvar á eftirfarandi stöðum: Vallarskóla á Selfossi, við íþróttamiðstöðina í Hveragerði, grunnskólanum í Þorlákshöfn, safnaðarheimilu á Hellu, grunnskólanum á Hvolsvelli, grunnskólanum á Stokkseyri og í Þykkvabæ.

Um 100 sjálfboðaliðar Rauða krossins af höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum eru nú á leið til þessara staða til að aðstoða sjálfboðaliða á svæðinu við skráningu fólks, aðhlynningu og til að veita sálrænan stuðning. Fólki er einnig veitt hressing og matur eftir föngum.

Í Hveragerði sjá sjálfboðaliðar Rauða krossins um að elda mat fyrir þá sem vilja, og er öllum bent á að fara að íþróttamiðstöðinni.

Áfallateymi Rauða krossins er nú að störfum á vettvangi. Þá eru tveir túlkar í fjöldahjálparstöðinni á Selfossi, einn pólskur og hinn rússneskur.

Hjálparsíminn 1717 sér einnig um að koma upplýsingum til aðstandenda, og er fólki bent á að hringja í leitarþjónustu Rauða krossins í 1717. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert