Fólk heldur sig úti í Hveragerði

Búið er að rýma dvalarheimili aldraðra í Hveragerði.
Búið er að rýma dvalarheimili aldraðra í Hveragerði. mbl.is/Guðmundur Karl

Íbúar í Hveragerði halda sig utan dyra en verið er að opna hjálparstöð við grunnskóla bæjarins. Verið er að reisa þar tjöld og koma fyrir öðrum búnaði. Fólk heldur ró sinni þótt mikið hafi gengið á þegar stjóri skjálftinn reið yfir í dag.

Þá er búið að reisa tjöld utan við dvalarheimili aldraðra í bænum en húsið var rýmt eftir skjálftann. Mikill fjöldi lögreglumanna og hjálparsveitarmanna er á ferli í bænum og veitir aðstoð ef þurfa þykir.  Viðbragðsteymi frá Rauða krossinum er komið til Hveragerðis og mun aðstoða menn eftir þörfum.

Á Selfossi er fjöldahjálparstöðin í Sólvallaskóla og hafa um 50 manns komið þangað. Í Þorlákshöfn er verið að opna fjöldahjálparstöð í grunnskólunum. Um 60 manns frá Landsbjörgu eru komnir á svæðið og frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins eru um 30 manns.

Langferðabílar, sjúkrabílar, gámabílar, tjöld og fleira er tiltækt og búið að tryggja þann mannskap og tæki sem þarf í bili.


Um 15-20 manns hafa fengið meðferð á heilsugæslunni á Selfossi vegna minni háttar áverka.
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert