Flugdólgur í vél með íslenskum þingmanni

Karl V. Matthíasson.
Karl V. Matthíasson.

Uppnám varð í flugvél, sem þeir Karl V. Matthíasson, alþingismaður, og Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, fóru með frá Vladivostok til Moskvu í Rússlandi í morgun. Farþegi, sem hafði drukkið áfengi stíft, missti stjórn á sér og á endanum þurftu farþegar að yfirbuga hann og binda.

Karl sagði í samtali við mbl.is, að þeir Þórður hefðu verð að koma af þingmannaráðstefnu Norðurskautsins í Vladivostok  og farið með flugvél rússneska flugfélagsins Aeroflot til Moskvu. Fyrir framan Karl sat maður, sem byrjaði fljótlega að drekka viskí ótæpilega og þegar flugferðin, sem tók um 9 stundir, var um það bil hálfnuð, var maðurinn orðinn alldrukkinn. Hann byrjaði á að æla á flugvélarganginn.

„Farþegar báðu manninn um að æla í poka, eða þannig túlkaði ég rússneskuna. Hann snéri sér þá til hliðar og ældi á huggulega konu sem  sat við hlið hans. Hún tók það óstinnt upp og þá byrjaði hasarinn," sagði Karl.

Maðurinn hóf að áreita þá farþega sem sátu næst honum lét m.a. tóma flösku falla á Karl. Þá afklæddist farþeginn að ofan og fór svo að berja frá sér og á glugga flugvélarinnar. Áhöfn vélarinnar réði lítið við ástandið og á endanum tóku fjórir farþegar sig til og yfirbuguðu manninn og bundu hann. Þegar til Moskvu var komið tók lögreglan við manninum og flutti hann á brott.

„Þetta var óneitanlega frekar óþægilegt," sagði Karl, „því maður er í flugvél og kemst ekkert. Það var greinilegt að þessi maður var viti sínu fjær og hafði enga stjórn á gerðum sínum."

Hann sagði þetta sýna, að ekki ætti að veita áfengi í flugvélum. „Það er allt of lítið af því gert að ræða um afleiðingar áfengisneyslu og þau vandamál sem hún hefur í för með sér," sagði Karl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert