Sálrænt áfall getur komið í kjölfar skjálftans

Rauði kross Íslands segir, að viðbrögð við alvarlegum atburðum séu einstaklingsbundin og þess vegna sé mikilvægt að sýna öðrum umburðarlyndi, skilning  og svigrúm til að takast á við áfallið á sinn hátt. Gott sé að vera vakandi fyrir þeim sem einangra sig eða líður illa.

Í tilkynningu frá RKÍ segir, að eftir alvarlegan atburð eins og jarðskjálfta séu börn mest hrædd við að atburðurinn gerist aftur. Að einhver meiðist eða deyi eða að vera aðskilin frá fjölskyldu eða stuðningsaðilum.
 
Mikilvægt sé  að börn og unglingar finni að fullorðna fólkið hafi stjórn í aðstæðum, sýni ró og haldi sömu reglu innan fjölskyldunnar og vanalega (t.d. svefntími, matartími, lesa bók fyrir svefninn, útivistarreglur). Jafnframt að börn og unglingar finni hlýju og stuðning innan fjölskyldu eða hjá stuðningsaðila. 
 
Þeir sem eiga um sárt að binda þurfa að huga að mikilvægum þörfum eins og að nærast, drekka vökva, huga að svefni og hvíld. Allir ættu að forðast að neyta áfengis eða vímuefna við þessar aðstæður þar sem það dregur verulega úr getu til að takast á við alvarlegan atburð sem þennan.
 
Besta áfallahjálpin til þeirra sem líður illa er að finna stuðning fjölskyldu og vina með því að styrkja og styðja þá sem líður illa. Það er gert með því að vera saman því nálægð er oft mikilvægari en mörg orð. Einnig er mikilvægt að börn hafi eitthvað fyrir stafni, í nærveru og með eftirliti fullorðinna.
 
Heppilegt er að nýta sér þá þjónustu samfélagsins sem einstaklingar og fjölskyldur hafa nýtt sér áður og hefur gefist vel.
 
Á skjálftasvæðum er frekari sálrænan stuðning að fá:

Selfoss: Fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Vallarskóla þar sem starfsmenn Rauða krossins ásamt prestum og starfsmönnum heilsugæslunnar veita aðstoð.

Hveragerði: Fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Grunnskóla Hveragerðis , heilsugæslustöðin og sóknarprestur.
 
Einnig veitir félagsþjónusta sveitarfélaga stuðning eins og verið hefur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert