Sálræn áhrif koma fram síðar

Klukka í húsi í Hveragerði sýnir tímann þegar jarðskjálftinn reið …
Klukka í húsi í Hveragerði sýnir tímann þegar jarðskjálftinn reið yfir á fimmtudag. Klukkan skaust tvo metra fram á gólf. mynd/Helena

Sigurður Guðmundsson landlæknir segir að liðið geti nokkrir dagar, vikur eða jafnvel mánuðir þar til sálræn áhrif jarðskjálftans á Suðurlandi komi fram hjá fólki í grennd við skjálftamiðjuna.

„Nú taka við eftirköstin og þá skiptir máli að sálrænni skyndihjálp, áfallahjálp sem Rauði krossinn sinnir af miklum ágætum, verði fylgt eftir hjá heilbrigðisþjónustunni, þannig að þeim sem líður illa verði boðin aðstoð. Það má búast við því að vandamál, sem þessu tengjast, geti komið fram ekki aðeins á næstu dögum, heldur á næstu vikum og jafnvel næstu mánuðum," segir Sigurður. Hann hélt í dag blaðamannafund þar sem hann fjallaði um  áfallahjálp og stuðning við íbúa á skaðasvæðunum.  

Sigurður sagði, að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafi gefið út leiðbeiningar, sem byggjast á reynslunni af eftirköstum náttúruhamfara víða um heim, og þar komi fram að menn geta búist við hvers kyns vandamálum allt að tveimur árum eða jafnvel lengur eftir áföll. Því þurfi að vera viðbúnaður til að sinna vandamálum, sem þessu tengjast, næstu misserin.

Mikilvæg að upplýsa fólk

„Það liggur fyrir eftir skjálftana á Suðurlandi árið 2000 að dæmi eru um að fólki hafi liðið miður vel alllengi á eftir og það má alveg búast við því að svo geti farið núna," segir Sigurður. „Það er háð mjög mörgum atriðum, hvort fólk missti verulegan hluta eigna sinna í þessum skjálftum, hvort það þurfti að búa við stöðuga eftirskjálfta dagana á eftir, eins og sumir gera nú, ekki síst í Hveragerði. Þegar við vorum þar í gær urðum við kannski mest vör við að fólki var eðlilega dálítið órótt. Langflestir geta komist yfir þetta án verulegrar utanaðkomandi hjálpar og mestu máli skiptir núna að upplýsa fólk um það sem er í gangi, t.d. í gegnum fjölmiðlana og á fjöldahjálparstöðvum Rauða krossins."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert