Heimild til að kalla út varalið hefði komið sér vel

Bókahillurnar í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi urðu undan að láta …
Bókahillurnar í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi urðu undan að láta í jarðskjálftanum. mbl.is/Guðmundur Karl

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir á heimasíðu sinni í dag það hefði komið sér vel í kjölfar jarðskjálftans í Ölfusi á fimmtudag að  hafa haft í lögum heimild til að kalla út varalið til að fylla skörð í löggæslu á höfuðborgarsvæðinu og einnig til starfa á skjálftasvæðinu.

Björn segir, að á  undraskömmum tíma eftir skjálftann hafi um 400 manna lið verið komið á vettvang til að veita aðstoð á skjálftasvæðinu. En spurningar hafi vaknað hjá stjórnendum lögreglu um það, hvernig eigi að fylla það skarð, sem myndist við framkvæmd venjulegra lögreglustarfa á heimaslóð, þegar stór sveit lögreglumanna sé send til starfa annars staðar eins og nú gerðist. Um 30 lögreglumenn af höfuðborgarsvæðinu fóru til starfa á skjálftasvæðinu síðdegis á fimmtudag  og enn var hópur manna þaðan við störf þar 30 maí.

„Hér hefði komið sér vel að hafa haft í lögum heimild til að kalla út varalið til að fylla skörð í löggæslu á höfuðborgarsvæðinu og einnig til starfa á skjálftasvæðinu. Vissulega er almannavarnaheimild til að kalla út menn til starfa við björgun og aðstoð í almannavarnaástandi, en heimildin nær ekki til varaliðs í þeim skilningi, að unnt sé að kalla menn til að gegna störfum í stað fullgildra lögreglumanna. Ég hef hingað til talað fyrir daufum eyrum of margra, þegar ég hef hvatt til þess, að sett verði í lög ákvæði um heimild til að kalla út varalið. Viðbrögðin hafa verið svo einkennileg hjá mörgum, að rökræður skila ekki einu sinni árangri. Ég átta mig ekki á því, hve alvarlegt atvik þarf að gerast til að opna augu andstæðinga varaliðsheimildarinnar fyrir nauðsyn liðsins," segir Björn.

Á heimasíðu hans segir einnig, að strax eftir að fréttir bárust um skjálftann hafi Almannavarnamiðstöð undir handarjaðri Evrópusambandsins strax boðið aðstoð og frá Sameinuðu þjóðunum hafi einnig verið haft samband. Þá var eftirlitsskipi Dana við Grænland snúið í átt til landsins og sömu sögu sé að segja um varðskip Færeyinga. Þegar staða mála skýrðist, var skipunum haldið að fyrri störfum.

Heimasíða Björns Bjarnasonar 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert