Stefnt að frumvarpi um eldsneytisskatta í haust

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra á blaðamannafundinum í dag.
Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Golli

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, segir að mikið hafi gerst frá því starfshópur um heildarstefnumótun skattlagningar á  eldsneyti og ökutækja var skipaður fyrir tæpu ári síðan.

Að sögn Árna þarf að komast að pólitískri niðurstöðu hvað verður gert. Gerir ráð fyrir að það taki sumarið að fara yfir þessar niðurstöður og vonandi hægt að leggja fram frumvörp í haust og þau afgreidd fyrir áramót. 

Skýrslan var að sögn Árna kynnt á föstudag í ríkisstjórn en ekki búið að fjalla efnislega um niðurstöðuna og ríkisstjórnin því ekki búin að taka afstöðu til þeirra leiða sem nú eru lagðar til. Segir Árni að það sé nauðsynlegt að það komi fram að ekki sé búið að taka pólitíska afstöðu í málinu.  

Að sögn fjármálaráðherra eru  tvær aðrar nefndir að skoða þessi mál og munu þær ljúka störfum fljótlega. Eru það nefnd um almenningssamgöngur og nefnd um flutningsjöfnun á landsbyggðinni. Segir Árni að þar muni örugglega koma fram sjónarmið sem hafa áhrif á störf þeirra nefndar sem nú skilar af sér skýrslu. 

Hæst koltvísýringslosun á Íslandi innan EES

Á blaðamannafundi í dag kom fram að Ísland er með hæstu koltvísýringslosun nýskráðra fólksbíla innan evrópska efnahagssvæðisins. Segir formaður starfshópsins að það stefni í óefni ef ekkert verður að gert.

Niðurstaða starfshópsins er sú að til þess að ná settum markmiðum fram er að tengja skattlagningu við losun á koltvísýringi. Leið sem nágrannaþjóðirnar hafa verið að fara í auknu mæli.

Óbreyttar tekjur ríkissjóðs samkvæmt tillögum starfshóps

Í skýrslu starfshópsins er lagt til að breytingar verði gerðar á stofngjöldum ökutækja. Að komið verði á koltvísýrings (CO2) losunargjaldi í stað vörugjalda á ökutæki. Að skráð koltvísýringslosun komi í stað skráðs rúmtaks aflvélar.

Starfshópurinn leggur til breytingar á undanþágum frá losunargjaldi og þær einfaldaðar. Breytingarnar þýða áætlað tekjutap ríkissjóðs upp á 1.200 milljónir króna.

Jafnframt er lagt til að árgjald, það er bifreiðagjald, verði lækkað og það fari eftir losun koltvísýrings. Þetta þýðir að tekjur ríkissjóðs munu minnka um 500 milljónir króna.

Starfshópurinn leggur til að lagður verðu  kolefnisskattur á jarðefnaeldsneyti. Fjárhæð skattsins verði ákvörðuð út frá skráðu markaðsverði fyrir losunarheimildir CO2 og háð markaðsverði og gengi evrunnar. Verði í kringum 5 kr. per lítri af bensíni en 6 kr. á lítra af dísilolíu. Áætlaður tekjuauki ríkissjóðs um 1.700 milljónir króna. Þetta þýðir að heildartekjur ríkissjóðs af eldsneyti verða þær sömu  og áður heldur er einungis um tilfærslur að ræða  á milli flokka.

Kílómetragjald á ökutæki yfir 10 tonn verði óbreytt en verði innheimt með GPS tækni um leið og sú tækni er orðinn áreiðanlegur grundvöllur skattheimtu. Í heild gera tillögur starfshópsins ráð fyrir tekjutilfærslu í skattlagningu af ökutækjum yfir á eldsneyti.

Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar fjármálaráðuneytis, samgönguráðuneytis og umhverfisráðuneytis og átti starfshópurinn samráðsfundi við 29 hagsmunaaðila. Í skipunarbréfi starfshópsins kemur fram að starfshópurinn eigi að gera tillögur um samræmda skattlagningu ökutækja og eldsneytis sem hafi þau markmið að leiðarljósi að hvetja til notkunar vistvænna ökutækja, orkusparnaðar, minnkunar á losun gróðurhúsalofttegunda, aukinnar notkunar innlendra orkugjafa, fjármagna uppbyggingu og viðhald vegakerfisins og þjóna áfram sem almenn tekjuöflun fyrir ríkissjóð.

Í skýrslu starfshópsins er velt upp mismunandi valkostum og lagðar fram tillögur sem miða að því að reyna að ná fram þessum markmiðum. Eru tillögur starfshópsins hugsaðar sem grunnur fyrir frekari ákvarðanatöku, þannig að á grunni þeirra verði unnt að vinna frumvörp til laga. Bent er á að ýmsar tímabundnar undanþágur fyrir vistvæn ökutæki og orkugjafa renna út um næstu áramót.

Hugmyndir starfshópsins eru unnar út frá fjórum núgildandi stoðum í skattlagningu ökutækja og eldsneytis, en það eru stofngjald (vörugjald af ökutækjum), árgjald (bifreiðagjald), eldsneytisgjald (vörugjöld af eldsneyti og olíugjald) og notkunargjald (kílómetragjald). Ný og samræmd skattlagning ökutækja og eldsneytis nær til allra þessara þátta, að því er segir í skýrslu hópsins sem kynnt var á blaðamannafundi í dag.

Fram kom á fundinum að umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, fagni þeim tillögum sem kynntar eru í skýrslunni.  

Skýrsla starfshópsins  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert