Einmana og villtur hvítabjörn

Hann virtist einmana og villtur, grunlaus um örlög sín, hvítabjörninn sem var felldur í Þverárhlíð í Skagafirði í dag. Myndir náðust af því þegar hann var skotinn, en ekki voru allir sáttir við endalok bjarnarins. Hvítabjörninn hefur verið settur í frystigeymslu, en stefnt er að því að hann verði rannsakaður og síðar stoppaður upp.

Um karldýr var að ræða sem vó um 250 kíló, var um tveir metrar að lengd og á að giska rúmur metri að hæð upp á herðakamb. Egill Steingrímsson, héraðsdýralæknir á Blönduósi, sagðist telja að um frekar ungt dýr hafi verið að ræða, ef til vill tveggja til þriggja ára, og ekki fullvaxta.

Hvítabjörninn var felldur laust fyrir hádegi, en til hans sást fyrst í morgun. Það voru ábúendur á Keldudal sem fyrst urðu bjarnarins vör, en þeir trúðu ekki sínum eigin augum í fyrstu.

Fjölda fólks dreif að til að fylgjast með aðgerðum lögreglu, sem hélt á vettvang eftir að minnst fjórar ábendingar höfðu borist henni um ferðir bjarnarins. Lögreglumaður á Sauðárkróki segir bjarndýrið hafi haldið sig um kílómetra frá veginum og á tímabili hafi menn misst sjónar af honum, enda var þoka á svæðinu.

Að sögn lögreglunnar var það af öryggisástæðum að dýrið var fellt, en ekki voru allir sáttir við þau endalok. Egill dýralæknir segir að vel hefði verið hægt að koma í veg fyrir drápið og telur hann ámælisvert að lögregla skyldi ekki hafa lokað veginum fyrir utanaðkomandi fólki.

Páll Hersteinsson, prófessor við líffræðiskor Háskóla Íslands, segir hvítabirni gjarnan vera við jaðar meginíss fyrir austan Grænland þar sem þeir eru á selveiðum. Það geti gerst að ísspöng eða jakar losni frá og berist nær Íslandi.

Ísinn bráðni smám saman og gerist það sé líklegt að dýrið leiti til lands ef það verður þess vart. Hann segir hvítabirni geta synt langar vegalengdir, að minnsta kosti vel á annað hundrað kílómetra án vandræða. Páll telur ekki að dýrið hafi verið lengi á landi.

Harla óalgengt er að sjá hvítabirni á landi hér. Það hefur þó gerst nokkrum sinnum síðustu áratugi, en var langalgengast í lok 19. aldar þegar hafís kom að landi nánast árlega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert