Gefðu þér tíma

Ökumenn sem eru í andlegu ójafnvægi eru líklegri til að lenda í óhöppum en aðrir. Deilur, rifrildi og andlegt uppnám var undanfari fjögurra af 15 banaslysum í umferðinni á síðasta ári.

Þetta kom fram á blaðamannafundi þar sem VÍS kynnti þjóðarátak gegn umferðaslysum í sjöunda sinn, en átakið ber yfirskriftina „Gefðu þér tíma“.

„Ökumenn í andlegu ójafnvægi, eftir deilur eða jafnvel rifrildi, rjúka út í fússi, út í bíl og af stað. Vegna þessa ástands sem þeir eru í þá er aksturslagið hættulegt,“ segir Ágúst Mogensen, forstöðumaður Rannsóknarnefndar umferðarslysa.

Til að minnast þeirra sjö sem hafa látið lífið í umferðinni á þessu ári var sjö grafreitum komið fyrir framan við hús Skautahallarinnar í Laugardal þar sem blaðamannafundurinn var haldinn.

Þar kom fram að í ár verði lögð áhersla á að brýna fyrir ökumönnum að þeir haldi ekki út í umferðina í tímaþröng og stressi heldur gefi sér rúman tíma þegar þeir skipuleggja ferðir sínar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert