Gefur ekkert eftir

Sturla Jónsson, sem farið hefur mikinn í mótmælum atvinnubílstjóra síðustu vikur og mánuði, segir að hinn nýstofnaði Lýðræðisflokkur verði keyrður á fulla ferð áfram, ekkert verði gefið eftir. Tíminn muni hins vegar leiða í ljós hvort hann hafi burði til að tefla fram listum á landsvísu.

Sturla stofnaði nýtt stjórnmálaafl ásamt félögum sínum í gær. Gengur það undir nafninu Lýðræðisflokkurinn. Að hans sögn er unnið að því að setja saman stefnuskrá flokksins, en barist verði fyrir þeim málum sem þeir félagar hafi haldið mest á lofti hingað til auk þess sem málefni aldraðra verði fyrirferðamikil. Stefnt er að því að opinn fundur verði haldinn í næstu viku til þess að áhugasamir geti skráð sig í flokkinn.

Sturla fullyrðir að það vanti nýtt stjórnmálaafl, á Alþingi vanti mann sem tali tungumál alþýðunnar. Sjálfum finnst honum umræðan á þinginu einkennast of mikið af orðagjálfri og eiginhagsmunapoti. Sturla segir að ekki hafi verið talað um annað en hann yrði formaður flokksins og segist hann finna fyrir miklum stuðningi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert