Boltinn hjá öðrum stjórnarmönnum Baugs

Í húsi Hæstaréttar eftir að dómur í Baugsmáli féll á …
Í húsi Hæstaréttar eftir að dómur í Baugsmáli féll á fimmtudag. mbl.is/G. Rúnar

„Lögin eru ótvíræð, menn sem hafa hlotið dóma fyrir refsiverða háttsemi mega ekki sitja í stjórnum,“ segir Skúli Jónsson, forstöðumaður Hlutafélagaskrár, um dóm Hæstaréttar í Baugsmálinu sem féll á fimmtudag.

Í 66. grein hlutafélagalaga segir að stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar megi ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur. Jón Ásgeir Jóhannesson, sem hlaut þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir bókhaldsbrot, er meðal annars starfandi stjórnarformaður Baugs, stjórnarformaður FL Group og stjórnarformaður fjölmiðlafyrirtækisins 365. Skúli segir að það virðist því ljóst að sakborningarnir í málinu séu ekki lengur hæfir til að sitja í stjórnum.

Skylda á stjórnarmönnum

Hann telur það hins vegar vera á ábyrgð stjórnanna sjálfra að sjá til þess að félögin séu rekin löglega. „Í 64. grein hlutafélagalaga segir að ef starfi stjórnarmanns lýkur áður en kjörtímabili hans er lokið, eða hann uppfyllir ekki lengur skilyrði til að geta verið í stjórn, sem er meðal annars að hafa ekki hlotið dóm fyrir refsivert athæfi, þá hvílir sú skylda á hinum stjórnarmönnunum að efna til kjörs nýs stjórnarmanns.“

Aðspurður hvað myndi gerast ef hinir dæmdu eða stjórnir fyrirtækjanna gripu ekki til aðgerða segir Skúli of snemmt að segja til um hvað Hlutafélagaskrá gæti gert. „Ef dæmdur maður væri tilkynntur inn í stjórn þá bæri okkur lögum samkvæmt að hafna slíkri tilkynningu.“ Fordæmi séu fyrir því að mönnum hafi verið neitað um slíka skráningu en að hann muni ekki til þess að þeim sem þegar sitja í stjórnum hafi verið gert að segja af sér.

Í refsingarkafla hlutafélagalaga kemur þó skýrt fram að ef stofnendur, stjórnendur, framkvæmdastjóri eða aðrir tengdir aðilar vanrækja skyldur sínar samkvæmt lögunum getur „Hlutafélagaskrá boðið þeim, að viðlagðri ákveðinni dagsekt eða vikusekt, að inna skylduverk að hendi“.

Gæti komið inn á borð FME

Niðurstaða Hæstaréttar gæti einnig komið inn á borð Fjármálaeftirlitsins (FME) þar sem FL Group er stærsti eigandi fjármálafyrirtækis, Glitnis banka, með tæplega fjórðungs eignarhlut.

Íris Björk Hreinsdóttir, upplýsingafulltrúi FME, segir of snemmt að segja til um hvort svo verði þar sem stutt sé síðan niðurstaðan lá fyrir. „Í ljósi þess verður skoðað hvort og hvaða áhrif hún hefur í tengslum við þau lög sem Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með.“

Bannað að veita lánin

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að refsiheimildir í hlutafélagalögum séu nógu skýrar til að hægt hafi verið að dæma Jón Ásgeir fyrir að hafa látið Baug lána Gaumi, félagi í eigu Jóns Ásgeirs og fjölskyldu hans, yfir 200 milljónir króna á meðan hann var forstjóri fyrirtækisins. Þorri lánanna var til að fjármagna kaup á hlutabréfum í Baugi og hluti þeirra var ógreiddur þegar húsleit var gerð hjá Baugi í ágúst 2002. Um er að ræða þrjá ákæruliði af þeim átján sem Hæstiréttur dæmdi í. Jóni Ásgeiri var hins vegar ekki gerð sérstök refsing þar sem brotin voru talin fyrnd.
Í hnotskurn
64. grein setur þær skyldur á herðar annarra stjórnarmanna að kjósa nýjan stjórnarmann fyrir þann sem hefur hlotið dóm fyrir refsivert athæfi. 66. grein segir að hver sem hefur hlotið slíkan dóm megi ekki sitja í stjórnum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert