,,Þær eru þar sem maturinn er”

Hvalveiðimenn segja nóg af hrefnu í sjónum. Hún sé hins …
Hvalveiðimenn segja nóg af hrefnu í sjónum. Hún sé hins vegar utar en hvaskoðunarbátar fara. mbl.is/Árni Torfason

Nóg er af hrefnu þegar komið er nokkuð frá landi segja hrefnuveiðimenn. Engin ástæða fyrir þær að koma að landinu.

Hvalveiðibáturinn Njörður KÓ7 veiddi sjöttu hrefnuna í morgun, 30 mílur norðvestur af Reykjavík.  Karl Þór Baldvinsson, skipstjóri, segir að þrátt fyrir lélegt skyggni hafi þeir séð einar 12 hrefnur.

Karl segir að sér virðist sem ástand sjávar sé mun betra en hefur verið undanfarin ár og nóg sé af æti. „Það er allt vaðandi í sílum hér utar og hrefnan er þar sem maturinn er. Það er því engin ástæða fyrir hana að fara nærri landi. Hvalskoðunarbátarnir eru helmingi nær landi en við og því ekki skrýtið að þeir sjái ekki hrefnur.“ Hann segir síðustu ár hafa verið óeðlileg ár fyrir hvalskoðunarfyrirtæki því hrefnan hafi verið að fara mun nær landi en hún á vanda til, í leit að æti. Þetta hafi hins vegar breyst.

„Það er okkar tilfinning að ástandið í sjónum sé allt annað og þetta heyrir maður frá öllum, hvort sem það er í Vestmannaeyjum eða á Breiðafirði. Maður sér líka að fuglinn er betur á sig kominn,“ segir Karl.

Hann sagðist að endingu vona að allt stæði til bóta með þorskstofninn líka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert